Þegar klukkan sló eina mínútu yfir miðnætti gekk samkomubann í gildi á Íslandi, en það mun standa næstu fjórar vikurnar eða til 13. apríl kl. 00:01.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins sem slíkt bann er sett, en markmiðið er að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem fer nú um heiminn eins og eldur í sinu.
Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því á blaðamannafundi á fimmtudaginn að hún hefði að tillögu sóttvarnalæknis ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars, þ.e.a.s. samkomubann.
Á sama fundi sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að þetta væri í fyrsta sinn í lýðveldissögunni sem slík ráðstöfun hefði verið lögð til. „Markmiðið er hér eftir sem hingað til að hemja útbreiðslu veirunnar, koma í veg fyrir að faraldurinn gangi of hratt yfir, standa vörð um þá sem eru útsettastir fyrir þessari sýkingu og tryggja að heilbrigðiskerfið standist þetta álag.“
Upplýsingasíða almannavarna og landlæknis um kórónuveiruna COVID-19.