Samtals 19 greinst við skimun ÍE

Búist er við fleiri niðurstöðum í kvöld.
Búist er við fleiri niðurstöðum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú hafa verið greind 1.800 sýni Íslenskrar erfðagreiningar vegna kórónuveirunnar og 19 einstaklingar hafa greinst með COVID-19-sjúkdóminn sem veiran veldur. Enn bendir því allt til þess að innan við eitt prósent almennings hafi sýkst af veirunni og aðgerðir heilbrigðisyfirvalda séu að bera árangur. 

Alls er búið að taka 3.087 sýni í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna í Turninum í Kópavogi og gert er ráð fyrir því að um þúsund niðurstöður verði tilbúnar í kvöld. Greind sýni verða þá um 2.800.

Alls hafa rúmlega 14.000 manns skráð sig í skimun fram til 27. mars. Annað slagið losna tímar eftir því sem afbókanir berast, að því er kemur fram á facebooksíðu Íslenskrar erfðagreiningar. Hægt er að fylgjast með hvort það eru lausir tímar á bokun.rannsokn.is.

Þrjú jákvæð sýni hafa þegar verið raðgreind, uppruni eins þeirra er úr manneskju sem var að koma frá vesturströnd Bandaríkjanna og er af tegundinni S sem er upprunalega veiran frá Asíu. Hin sýnin reyndust lítillega stökkbreytt og af gerðinni L, sem er algengari í Evrópu.
Von á er 100 sýnum til viðbótar úr raðgreiningu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert