Sér afgreiðslutími fyrir viðkvæma

Á morgun og á næstunni munu 25 verslanir Nettó og Samkaupa verða opnar á milli klukkan 9 og 10 fyrir þá sem eru í áhættu vegna smits af kórónuveirunni. Verslun er að aðlagast hratt að ástandinu sem faraldur veirunnar veldur þar sem mikil ásókn er í netverslun. Í dag var opnað í samkomubanni.  

„Vonandi léttir það einhverjum lífið,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, en áður en opnað verður fyrir hópinn verða verslanirnar sótthreinsaðar sérstaklega. Í myndskeiðinu er rætt við Gunnar um þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi.

Í Nettó í Mjódd var töluverður erill í dag þó ekki hafi hann jafnast á við það sem var undanfarna daga þegar mikið álag var á verslunum. Starfsfólk stóð í ströngu við að taka saman vörur fyrir netpantanir en þær hafa aukist mikið á undanförnum vikum. Svo mikið raunar að Nettó auglýsti eftir starfsfólki í þann hluta reksturins um helgina og fengu sterk viðbrögð að sögn Gunnars. 

Í dag mátti sjá að fólk var með hanska í versluninni til að verja sig gegn smiti og það sama má segja um starfsólk sem er oft í návígi við viðskiptavini. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert