Ragnhildur Þrastardóttir
Yfirvöld hafa ekki misst tökin á kórónuveirusmitum og er samkomubanni ekki beitt sem pólitísku tæki hérlendis þó að einhverjir hafi beitt því sem slíku erlendis. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið.
26 öndunarvélar eru til staðar á Landspítalanum en enginn sem smitaður er af kórónuveiru hér á landi hefur þurft að nota slíka vél hingað til.
Samkomubann fyrir 100 manns eða fleiri tók gildi á miðnætti í nótt, háskólum og framhaldsskólum hefur verið lokað og til sérstakra ráðstafana gripið í leik- og grunnskólum.
Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi höfðu 175 tilfelli kórónuveiru greinst hérlendis og tæplega 1.800 manns voru í sóttkví.
Spurður hvort það sé vísindalega sannað að samkomubann hafi áhrif á útbreiðslu veiru sem þessarar segir Þórólfur svo vera en aðgerðir einstaklinga til að koma í veg fyrir smit skipti mestu máli.