Höskuldur Daði Magnússon
„Þetta eru fordæmalausir tímar en við verðum bara að fikra okkur áfram,“ segir Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla í Kópavogi.
Skólastjórnendur nýttu gærdaginn í að leggja lokahönd á skipulag þess hvernig tekið verður á móti nemendum nú þegar samkomubann hefur tekið gildi. Aðeins mega vera 20 manns í hverri stofu að meðtöldum kennara og kallar það víða á breytt skipulag. Kársnesskóli verður lokaður í dag vegna verkfalls Eflingar og segir Björg að óvissan vegna verkfallsins sé óþolandi. Grunnskólar á Seltjarnarnesi verða sömuleiðis lokaðir í dag vegna umrædds verkfalls.
Björg segir í samtali við Morgunblaðið að búið sé að skipuleggja skólastarf í Kársnesskóla og taki það skipulag gildi þegar hægt verði að opna skólann á ný. Stefnt er að því að kenna börnum í fyrsta og öðrum bekk allan daginn, börnum í þriðja til fimmta bekk til hádegis eða þar um bil en börn í sjötta til tíunda bekk verði meira og minna í fjarkennslu. „Þau vinna heima í gegnum spjöldin sín, skila og taka á móti verkefnum rafrænt,“ segir Björg í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.