„Ég get lifað út maí“

Birgir Thorsteinsson Rijssel, lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi, segist geta …
Birgir Thorsteinsson Rijssel, lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi, segist geta fjármagnað líf sitt út maí í því atvinnuleysi sem nú blasi við, eftir það séu honum allar bjargir bannaðar. Birgir sagði mbl.is frá skyndilegum viðsnúningi eftir botnlausa vinnu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er sjálfstæður atvinnurekandi með tvo bíla en vinn líka mjög mikið með fyrrverandi vinnuveitanda sem er fyrirtæki sem heitir Doelen Coach/Doelen Verkuil Groep,“ segir Birgir Thorsteinsson Rijssel, íslenskur lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi, í samtali við mbl.is í gærkvöld.

Birgir er búsettur í Hoofddorp rétt utan við Amsterdam með eiginkonu sinni, hinni súrínömsku Marciu Patriciu Rijssel, og tveimur börnum þeirra, 17 og 23 ára, en einnig á þessi tæplega 54 ára gamli Íslendingur tvö börn og eitt barnabarn á Íslandi.

Birgir flutti til Hollands rétt fyrir aldamót og stundaði þar fyrst veitingarekstur áður en hann lauk námi sem lífvörður í árslok 2000. Þróuðust svo málin þannig að Birgir fór að starfa sem einkabílstjóri fyrir ýmsa gesti á vegum hollenska ríkisins, svo sem erlenda þjóðhöfðingja og ráðherra, en hefur einnig haft frægt fólk af annarri hlaupvídd í bifreiðum sínum, svo sem rapparann Snoop Dogg, leikarana Brad Pitt, George Clooney og Matt Damon, tónlistarkonuna Lady Gaga, Spánarkonung, japanska embættismenn og fleira gott fólk.

Birgir klauf sig fljótlega út úr Doelen Coach/Doelen Verkuil Groep og stofnaði eigin einkabifreiðaþjónustu, Thor-Limo, og hefur haft meira en nóg að gera sem sjálfstæður atvinnurekandi. Hann er einn með sitt fyrirtæki en þarf oft að leigja inn aukabílstjóra og skirrist ekki við að stökkva í vinnu hjá Doelen, sínum gamla vinnuveitanda. Menn hjálpast að í bransanum, segir Birgir.

Með frænda Snoop Dogg í bílnum

„Það er búið að vera brjálað að gera. Ég byrjaði sjálfur fyrir sjö árum og besta árið mitt var í fyrra,“ segir Birgir frá. „Maður er að fara á lappir klukkan fjögur, fimm á morgnana og koma heim tólf, eitt á kvöldin. Stundum erum við að sækja fólk til Lúxemborgar og alla leið til Frankfurt í Þýskalandi, við þurfum oft að fara um öll nágrannalöndin,“ segir bílstjórinn.

Áður en talið berst að þyngri málum, helsta tilefni viðtalsins þótt miður sé, er freistandi að spyrja Birgi út í einhverja af viðskiptavinum hans sem ferðast hafa með þessum íslenska bílstjóra um Holland.

Svona er ástandið hjá helsta samstarfsaðila Birgis, eðalvagnaþjónustunni Doelen Coach/Doelen …
Svona er ástandið hjá helsta samstarfsaðila Birgis, eðalvagnaþjónustunni Doelen Coach/Doelen Verkuil Groep, Benzarnir bíða fjársterkra viðskiptavina sem sitja heima í sóttkví eða þora ekki að hleypa heimdraganum af ótta við sóttina. Ljósmynd/Aðsend

„Já já, ég var nú með frænda Snoop Dogg í bílnum og þeir voru búnir að kaupa sér eitthvað af grömmum til að reykja í coffee shop [hollenskum kannabis-veitingastöðum]. Þá kom lögreglubíll fyrir aftan okkur og kveikti á ljósunum og hann [frændinn] stökk út úr bílnum á ferð. Við sáum hann hlaupa hraðar en Usain Bolt og hann bara hvarf,“ rifjar Birgir upp. „Við hittum hann svo másandi uppi á hóteli þar sem hann stóð í anddyrinu lafmóður. Við spurðum hann af hverju hann hefði hlaupið og hann sagði „nú lögreglan var fyrir aftan okkur og ég var með þrjú grömm af grasi,“ og ég sagði þá við hann að það væri nú löglegt að vera með fimm grömm af því á sér í Hollandi og hann vissi það auðvitað ekkert, sagðist bara vera svo vanur að lenda í löggunni í Bandaríkjunum,“ sagði Birgir og bætti því við að frændinn frækni, rapparinn Snoop Dogg, hefði verið í bílnum á undan þeim þegar lögreglan ók upp að aftari bílnum.

Blikur á lofti

„Þetta virkar þannig hjá okkur að janúar og febrúar eru mjög rólegir og maður gerir bara ráð fyrir því. Svo byrjar tímabilið aðra vikuna í mars og þá ertu bara fram í endaðan september á fullu og vinnur í raun miklu meira en maður má,“ útskýrir Birgir, spurður um strauma og stefnur í greininni.

Hann segir duglegan einkabílstjóra almennt afla meginhluta tekna sinna þetta tímabil og menn safni svo orku yfir vetrarmánuðina þegar rólegra sé yfir hollenskum ráðstefnu- og ferðamannaiðnaði.

Svona er ástandið almennt í hollenskri ferðaþjónustu þessa dagana, kóngur …
Svona er ástandið almennt í hollenskri ferðaþjónustu þessa dagana, kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Ljósmynd/Aðsend

Kórónuveiran hafi hins vegar sett verulegt strik í reikninginn og segist Birgir nú sjá fram á breytta tíma. „Þetta kemur upp og allt byrjar að lokast og allur stóri kúnnahópurinn, þeir ákveða bara að vera heima hjá sér, allir fundir hjá bissnessmönnum fara þá bara gegnum [spjallforritin] Skype eða Facetime og enginn ferðast lengur,“ segir Birgir um áhrif kórónufaraldursins.

Hann segir Belgíu hafa lokað um svipað leyti og Holland, Þýskaland hafi svo fylgt í kjölfarið svo ekki hafi verið feitan gölt að flá. „Ég rétt náði að skutla kúnnum til Düsseldorf á föstudaginn áður en Þýskaland lokaði,“ segir Birgir.

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, ávarpaði þjóð sína klukkan 19 í gærkvöld að staðartíma og sagði Birgir ráðherrann hafa flutt þau skilaboð að ekki væri affarasælt að heilu þjóðirnar lokuðu sig af. „Hann sagði okkur að búa okkur undir að 60 til 70 prósent af þjóðinni smituðust. Hann sagði ríkisstjórnina hafa tekið ákvörðun um lokanir fyrirtækja innanlands vegna þess að sjúkrahúsin fylltust þá hægar og þá þyrfti ekki að kjósa milli lifenda og dauðra,“ segir Birgir.

Getur lifað út maí

„Nú er ég ekkert að vinna, reikningarnir koma áfram og sem sjálfstæður atvinnurekandi fæ ég enga aðstoð frá ríkinu. Svarið var bara að við höfum sjálfir ákveðið að vera sjálfstæðir atvinnurekendur og það sé þá á okkar ábyrgð. Samt hvatti hollenska ríkisstjórnin þjóðina til að fara út í sjálfstæðan rekstur eftir bankahrunið á sínum tíma,“ segir Birgir og vottar fyrir vægri þykkju í rödd hans í fyrsta sinn í spjallinu.

„Ég get lifað út maí, eftir það veit ég ekki hvað ég geri,“ segir Birgir, þá verða sjóðir hans uppurnir. Marcia, kona Birgis, er þó í fullri vinnu sem bætir stöðu hans ekki. „Eina smáhjálpin sem sjálfstæðir atvinnurekendur fá er rétt hýra til að geta keypt í matinn,“ segir Birgir, „svo segja þeir að þú fáir enga hjálp eftir það af því að makinn getur keypt mat handa þér,“ segir bílstjórinn og hlær hjartanlega.

„Fólk hér tekur þessu bara eins og Hollendingar gera, það er engin reiði hérna en samt er almenningur ekki sáttur við ríkisstjórnina sem er bara að hjálpa þessum stóru fyrirtækjum sem samt borga í raun næstum enga skatta,“ segir Birgir og bætir því við að lítil og meðalstór fyrirtæki standi undir stærstum hluta skattgreiðslna fyrirtækja. „Þetta er bara eins og á Íslandi,“ segir hann.

Undir kappleik Íslands og Argentínu á dögunum. Frá vinstri: Birgir …
Undir kappleik Íslands og Argentínu á dögunum. Frá vinstri: Birgir Thorsteinsson Rijssel, Gervaine Moreno Rijssel, Shanice Sunna Rijssel og eiginkona Birgis, Marcia Patricia Rijssel. Ljósmynd/Aðsend

En finnst honum þá ekki kannski ágætt að fá að slaka á í skugga kórónuveiru eftir alla vinnuna og vera heima? „Nei, ég er eins og það heitir atvinnusjúklingur,“ segir Birgir og hlær. „Ég veit ekkert hvað ég á að gera þegar ég á að vera í fríi. Það versta er að nú er ég innilokaður með konunni allan daginn og ég veit ekkert hvað ég á að gera þegar við þurfum að fara að tala saman,“ segir Birgir Thorsteinsson Rijssel, einkabílstjóri og lífvörður í Hollandi, í fréttum sínum af kórónuveirufaraldrinum þar í landi. Eins og Íslendingar segja, þetta reddast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert