Sigurvegarinn í rannsókn Sorpu á flokkun og endurvinnslu heimilissorps á síðasta ári er hinn almenni neytandi. Sérstaklega er áberandi hvað flokkun hefur aukist á plasti á síðustu árum, að sögn Bjarna Gnýs Hjarðar, yfirverkfræðings Sorpu. Hann segir að heimili endurvinni úrgang sem aldrei fyrr og nýti allar mögulegar leiðir.
Bjarni segir sláandi hversu mikið plast hafi minnkað í sorptunnum íbúa á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár, en meðfylgjandi mynd sýnir þróun í nokkrum flokkum í rannsókn á húsasorpi í fyrra og nokkur síðustu ár. Í rannsókninni er byggt á sýnum sem tekin eru úr sorphirðubílum.
Skýringarnar á minna plasti í orkutunnum við heimili segir Bjarni að geti verið nokkrar, en ekki síst séu heimilin orðin mjög meðvituð um notkun á plasti og flokkun. Heimilin hafi almennt dregið úr notkun á plasti og aukið endurvinnslu í kjölfar mikillar umræðu um plastmengun. Þá þróun megi sjá í skilum á plasti á endurvinnslustöðvum.
Farvegum fyrir plast til endurvinnslu hafi verið fjölgað í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og alls staðar sé um sérsöfnun fyrir plast að ræða á höfuðborgarsvæðinu. Í þriðja lagi hafi birgjar boðið aðrar lausnir fyrir umbúðir en áður, m.a. sé plastefnið léttara en áður og fleiri bjóði pappír.
Bjarni segir að orkutunna við heimili hafi verið léttari í fyrra heldur en 2018. Í fyrra hafi hver íbúi að meðaltali hent 177,5 kílóum af óflokkuðum blönduðum úrgangi, ýmist í orkutunnu við heimili eða með sambærilegum hætti í gám á endurvinnslustöð. Síðustu ár hefur þetta magn verið á bilinu frá 186 kílóum og mest var blandað, óflokkað rusl rúmlega 200 kíló á íbúa að meðaltali 2011 og 2012.
Um 50% úrgangs í orkutunnu voru matarleifar, eða um 67 kíló á íbúa, og segir Bjarni að þar gæti verið verk að vinna fyrir heimilin. Þá sé hægt að sjá skýr merki um breytt mataræði fólks í niðurstöðum húsasorpsrannsóknar Sorpu.
Magn drykkjarumbúða sem greitt er fyrir á endurvinnslustöðvum dróst saman í fyrra. Eigi að síður komu upp úr orkutunnunum umbúðir sem rúmlega 135 milljónir króna hefðu verið greiddar fyrir við skil til Endurvinnslunnar. 2018 nam þessi upphæð rúmlega 185 milljónum króna.
Bjarni skýrir minna magn umbúða í tunnunum m.a. með fjölgun móttökustöðva og að þær sem fyrir eru hafi verið gerðar öflugri og aðgengilegri. Þá segir Bjarni að hluti skýringarinnar liggi líklega í því að í fyrra hafi harðnað í ári miðað við árin á undan og þá geti 16 krónur fyrir hverja flösku eða dós skipt máli fyrir marga.
Um er að ræða búnað sem notaður er til að flokka plast í pokum frá heimilisúrgangi í Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Íbúar í þeim sveitarfélögum sem skila plasti í pokum með heimilissorpi eru beðnir um að skila flokkuðu plasti á grenndarstöðvar eða á endurvinnslustöðvar þar til tilkynnt verður um annað, segir á heimasíðu Sorpu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. mars.