Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Frjálsa fjölmiðlun ehf. til að greiða þrotabúi DV 24 milljónir króna auk dráttarvaxta.
Frjáls fjölmiðlun keypti útgáfuréttinn að DV í september 2017. Skuldbatt fyrirtækið sig þá til að yfirtaka skuld DV við prentsmiðjuna Landsprent, að fjárhæð 22 milljónir, sem og 18 milljóna króna skuld DV við Íslandsbanka. Hins vegar greiddi Frjáls fjölmiðlun einungis tvær milljónir króna af skuld við Íslandsbanka en ekkert af skuld félagsins við Landsprent. DV ehf. fór svo í þrot í mars 2018.
Krafa þrotabúsins byggðist því á að Frjáls fjölmiðlun hefði ekki efnt skuldbindingar sínar og bæri því að greiða þær 24 milljónir króna sem upp á vantaði. Frjáls fjölmiðlun bar fyrir sig að forsendubrestur hefði orðið er í ljós kom að DV hefði ekki staðið til boða að halda prentsamningi sínum við Landspret, enda hefði meginforsenda þess að yfirtaka hluta skuldarinnar verið sú að prentsamningur stæði til boða.
Á þetta féllst dómurinn ekki, en í úrskurði segir að eigendur Frjálsrar fjölmiðlunar hefðu töluverða reynslu af viðskiptum sem þessum og hefði mátt vera þetta ljóst. Þá hefði verið nærtækt að setja fyrirvara um frekari tryggingar um þetta atriði í samningi aðila, hafi formlegur prentsamningur við Landsprent verið ástæða fyrir samningsgerðinni.
Var Frjálsri fjölmiðlun því gert að greiða 24 milljónir til þrotabúsins, auk tæpra 1,6 milljóna króna í málskostnað.