Smitaðist líklega af barþjóni með flautu

Maðurinn telur að hann hafi smitast á skíðabar, í líkingu …
Maðurinn telur að hann hafi smitast á skíðabar, í líkingu við þennan, í skíðaferðinni í Austurríki þar sem barþjónar blésu ótt og títt í dómaraflautur, en að minnsta kosti einn þeirra reyndist smitaður. AFP

„Ég er ekki orðinn fullfrískur en ég er ekkert slæmur,“ segir karlmaður á áttræðisaldri sem var um það bil sá tuttugasti sem greindist með kórónuveiruna á Íslandi. 

Maðurinn, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, var í skíðaferð í Ischgl í Austurríki í lok febrúar ásamt fleiri Íslendingum og hefur ákveðna hugmynd um hvernig hann smitaðist. 

„Ég kom á þennan fræga bar og heyrði í flautunni,“ segir hann en blaðamaður þarfnast frekari skýringa. 

„Það var þannig að á þessum veitingastað, sem er svona „aprés-ski“-staður, þangað mæta allir og þar er mikið stuð og stemning og mikið borið út af víni og barþjónarnir eru allir með flautu um hálsinn eins og íþróttadómarar og þegar barinn er orðinn mjög troðinn og þeir með fulla bakka blása þeir í þessar flautur og mér skilst að einn barþjónninn sem flautaði mikið hafi verið sýktur og sennilega margir sem hafa fengið veiruna frá honum. Og væntanlega er ég einn af þeim.“ 

Greindist viku eftir heimkomu

Maðurinn kom heim með flugi frá München þriðjudaginn 4. mars en fékk ekki fyrirmæli frá almannavörnum um að fara í sóttkví en tók þá ákvörðun, líkt og flestir Íslendingar sem voru í fluginu, að fara í sjálfskipaða sóttkví. 

Daginn eftir heimkomu, miðvikudaginn 5. mars,  fór hann strax að finna fyrir kvefeinkennum. „Það ágerðist um helgina og svo hringdi ég í heilsugæsluna á mánudeginum og fer í sýnatöku á þriðjudeginum. Í framhaldi af því greinist ég með veiruna.“ Hann greinist því viku eftir heimkomu, 11. mars.  

Sýnatakan fór fram í bíl mannsins í grennd við heilsugæsluna og segir hann að hún hafi verið lítið mál. „Ég fékk bara pinna upp í kokið og nefið og svo keyrði ég bara í burtu.“

Enn með þyngsli fyrir brjósti

Heilsufar mannsins er gott að eigin sögn, eins og gefur kannski augaleið þegar maður á áttræðisaldri skellir sér í skíðaferð, en vegna aldurs telst hann í áhættuhópi. „Ég er ágætlega á mig kominn, hef ekki reykt í áratugi og stunda líkamsrækt og er ennþá í fullri vinnu. Ég hef verið heppinn hvað það varðar.“

Hann segist því ekki hafa verið með stórar áhyggjur eftir að hann greindist, sér hafi ekki liðið sem verst. „Það var einn dagur þar sem ég var frekar slæmur og svaf mikið og var meira og minna í rúminu.“

Mestar áhyggjur hefur hann af sambýliskonu sinni, sem hann heldur að sé að veikjast núna, en hún var ekki með í skíðaferðinni.

Tíu dagar eru frá því að fyrstu einkenni fóru að gera vart við sig og ljóst að enn er nokkuð í að maðurinn nái fullum bata. „Ég er með þyngsli fyrir brjósti og hósta en ég er hitalaus. Ég fer ekkert aftur út í samfélagið fyrr en ég er fullviss um að ég sé ekki að smita. Það liggur alveg fyrir. Mér var sagt um daginn þegar þau töldu mig einkennalausan að ég myndi losna 20. mars en ég dreg það í efa, en það verður bara að koma í ljós.“

Skíðasvæðinu í Ischgl, þar sem maðurinn var á skíðum í …
Skíðasvæðinu í Ischgl, þar sem maðurinn var á skíðum í lok febrúar, hefur nú verið lokað, mun fyrr en venjulega, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. AFP

Þakklátur fyrir dagleg símtöl frá „hinu opinbera“

Maðurinn fær dagleg símtöl frá starfsfólki sóttvarnalæknis og það þykir honum vænt um. „Afskipti hins opinbera af mér hafa ekki verið nein nema þau að ég borga mína skatta og hef staðið í skilum á þeim. Núna hringja þeir og spyrja mig hvernig ég hafi það, það finnst mér ógurlega fallegt af þeim.“ 

Hann segir einangrunina geta verið ósköp einmanalega. „Það er ósköp fúlt að geta ekkert gert. Ég er bara búinn að vera að bora í nefið,“ segir hann og hlær, en bætir svo við að sjónvarpsgláp og lestur hafi stytt sér stundir. 

Aðspurður hvort hægt sé að taka eitthvað jákvætt út úr þeirri reynslu að greinast með kórónuveiruna segir hann það kannski erfitt. „En sóttvarnateymið hefur staðið sig vel og tekið rétt á hlutunum, ég dáist að þeim, það er engin helvítis panikk. Vonandi bara að sem flestir sleppi og enginn bíði skaða af.“

Þegar hann hefur náð fullum bata taka ýmis verkefni við, til að mynda að gera upp hús sem hann hefur nýlega fest kaup á. Hann segist ekki óttast að veiran muni banka aftur upp á þegar hann hefur náð fullum bata. „Ég á ekki von á því, ég held að þetta sé eins og hver önnur flensa, þú ferð í gegnum hana og svo er hún bara búin. Þetta er bara eins og hver önnur skítapest, ef menn eru vel á sig komnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert