Varðskipið Týr komið á Vestfirði

Kort/Veðurstofa Íslands

Varðskipið Týr er komið til Önundarfjarðar en óskað var eftir því að skipið yrði til taks á Vestfjörðum vegna óveðurs sem þar geisar. Appelsínugul viðvörun er í gildi og hefur þurft að rýma hús á Flateyri og Patreksfirði vegna snjóflóðahættu. Spáð er vondu veðri um nánast allt land í dag.

Í gær voru íbúðarhús við Ólafstún á Flateyri og nokkur önnur hús ofarlega í bænum og tvö íbúðarhús við Urðargötu á Patreksfirði rýmd vegna snjóflóðahættu.

„Óvissustig er í gildi á Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu og hættustigi hefur við lýst yfir á Patreksfirði og Flateyri þar sem hús hafa verið rýmd. NA-hríðaveður hefur verið frá mánudagsmorgni og er gert ráð fyrir áframhaldandi vonskuveðri til þriðjudagskvölds. Mikill snjór er til fjalla víða á landinu en síst á SV-landi og eru þar stífir vindflekar eða hálfgert harðfenni víða en þó hefur bætt lítillega á snjó ofana þetta harðfenni. Mikið bætti á snjó á Norðurlandi í hvassri NNA-átt á miðvikudag og aftur aðfaranótt laugardags. Einnig hefur bætt mikið á snjó á Austfjörðum en þar hefur náð að blotna í snjónum í neðri hluta hlíða. Vot flóð féllu í dag 16. mars á Austfjörðum,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

„Áframhaldandi norðaustanstormur og -hríð á norðvestanverðu landinu í dag, og við bætist hríðarveður á Norður- og Norðausturlandi þegar líður á daginn. Einnig er útlit fyrir talsverða úrkomu syðst á landinu og með suðausturströndinni. Það er því full ástæða til að skoða vel færð og veður áður en lagt er af stað í ferðalög, þótt komið sé fram yfir miðjan mars. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu á morgun, og verður víða hæg breytileg átt og stöku él annað kvöld, en þá herðir einnig á frosti.

Útlit er fyrir nokkuð rólegt veður á fimmtudag en á föstudag gæti dregið til tíðina með lægð sem ber með sér hlýindi og mögulega rigningu á láglendi sunnan- og vestanlands,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Frá siglingu Týs vestur á firði í gærkvöldi.
Frá siglingu Týs vestur á firði í gærkvöldi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Appelsínugul viðvörun í gildi fram á kvöld

Appelsínugul viðvörun hefur verið í gildi á Vestfjörðum frá því klukkan 19 í gærkvöldi og gildir hún til klukkan 20 í kvöld. „Norðaustanstormur eða -rok 20-25 m/s, með talsverðri snjókomu. Búast má við miklum skafrenningi með lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður.“

Við Breiðafjörð hefur gul viðvörun verið í gildi frá því klukkan 21 í gærkvöldi og gildir hún til klukkan 20. „Norðaustanhvassviðri, -stormur eða -rok, 15-25 m/s, hvassast norðan til. Búist er við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, sér í  lagi á fjallvegum.“

Strandir og Norðurland vestra — gul viðvörun er í gildi þar þangað til klukkan 18. „Norðaustanhvassviðri eða -stormur, 15-23 m/s, og snjókoma á Ströndum og við ströndina. Hægari vindur og úrkomuminna í innsveitum. Búist er við talsverðum skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.“

Norðaustan 13-23 og snjókoma um landið norðanvert í dag, áfram hvassast á Vestfjörðum. Hægari vindur sunnan til og él, einkum með suðausturströndinni. Víða vægt frost.
Minnkandi norðanátt og éljagangur á morgun, allvíða hæg norðlæg eða breytileg átt síðdegis og stöku él norðan til en með suðurströndinni annað kvöld. Herðir á frosti.

Á miðvikudag:
Norðaustan 8-13 m/s. Dálítil él norðan- og austanlands og einnig syðst á landinu. Úrkomulaust annars staðar. Frost 0 til 5 stig. Hægari vindur um kvöldið og herðir á frosti.

Á fimmtudag:
Hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Frost 1 til 10 stig. Sunnan 5-10 um kvöldið. Þykknar upp vestan til á landinu með dálitlum éljum við suðurströndina og minnkandi frosti.

Á föstudag:
Gengur í sunnan 10-18 með snjókomu eða slyddu, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti um og yfir frostmarki. Suðvestanátt um kvöldið um kvöldið með éljum og kólnar.

Á laugardag:
Suðvestan 8-15 og él, en léttskýjað norðaustan- og austanlands. Víða vægt frost.

Á sunnudag:
Sunnanstormur með snjókomu eða slyddu, en síðar rigningu á láglendi. Úrkomulítið norðaustan til á landinu. Hlýnar í veðri.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðvestanátt með slydduéljum eða éljum en lengst af úrkomulítið norðan- og norðaustanlands. Hiti um frostmark en vægt frost norðaustan til.

Nánast allt ófært á Vestfjörðum

Vetrarfærð er um flest allt land en slæm veðurspá er fyrir Vestfirði í dag, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Vestfjörðum eru vegir víðast hvar ófærir eða lokaðir en fært er milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Súgandafjörður er ófær vegna veðurs. Það sama á við um Klettsháls og Kleifaheiði en vegur þar er lokaður vegna veðurs og snjóflóðs á Raknadalshlíð. Vegurinn um Mikladal, Hálfdán og Gemlufallsheiði er lokaður vegna veðurs. Lokað er um Flateyrarveg og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu.

Á Norðurlandi er Vatnsskarðið lokað og beðið með mokstur vegna veðurs. Eins er Þverárfjall lokað og Víkurskarð. Siglufjarðarvegur er ófær vegna veðurs. Þungfært er í Héðinsfirði og ófært milli Dalvíkur og Hjalteyrar en unnið að hreinsun. 

Það er víða ófært á Snæfellsnesi en unnið að hreinsun. Þungfært er á Bröttubrekku og Fróðárheiði er lokuð vegna veðurs.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert