Kórónuveirusýkingar eru í miklum vexti í flestum löndum og þótti það skynsamlegt á þessum tímapunkti að beina því til Íslendinga sem koma til landsins að fara í tveggja vikna sóttkví án tillits til þess hvaðan þeir koma.
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar síðdegis í dag. Aðspurður hvers vegna þetta ætti ekki við um ferðamenn sagði Þórólfur að í fyrsta lagi teldust ferðamenn ekki jafn smitandi fyrir Íslendinga og Íslendingar, enda héldu þeir sig yfirleitt í smærri hópum og blönduðust Íslendingum ekki mikið.
Þá væru aðeins tveir þeirra 250 sem greinst hafi með kórónuveiruna hérlendis verið ferðamenn. Sagði Þórólfur telja það rétta ákvörðun að vera ekki að beina spjótum sínum að ferðamönnum, enda myndi það hafa í för með sér mikinn kostnað en lítinn árangur.
Aðrir sem undanskildir eru sóttkvíarskyldu eru flugáhafnir og áhafnir flutningaskipa. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði það nauðsynlegt til að halda flutningskeðjunni gangandi. Þeir sem sinni þessum störfum gæti þó sérstakrar varúðar og vel sé fylgst með heilsu þeirra, auk þess sem þeir dvelji yfirleitt stuttan tíma á áhættusvæðum.