Áætlað er að frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði fram, geti skapað allt að 4.000 ársverk. Það miðar að því að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum, auka umferðaröryggi og stytta og bæta vegtengingar milli byggða. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
Með lögunum verður Vegagerðinni heimilt, að undangengnu útboði, að eiga samvinnu við einkaaðila um fjármögnun, hönnun, undirbúning og framkvæmdir við sex afmörkuð verkefni ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma. Þá verður heimilt að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð. Gjaldtaka skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og stendur að hámarki í 30 ár.
Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Þær stuðla ennfremur allar að auknu umferðaröryggi. Í lok samningstíma teljast mannvirki eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.
„Öll verkefnin fela í sér styttingu vega ásamt því að stuðla að bættu umferðaröryggi. Vegastytting minnkar ferðatíma fólks og dregur úr flutningskostnaði fyrir fyrirtæki. Síðast en ekki síst felst í þessu umtalsverður umhverfisávinningur með minni losun gróðurhúsalofttegunda og annarrar umferðartengdrar mengunar.“ Þetta er haft eftir Sigurði Inga Jóhannessyni í tilkynningu.
Samvinnuverkefnin bætast við allar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar eru með hefðbundnum hætti á fjárlögum en í nýjustu samgönguáætlun voru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin.
Þau verkefni sem lagt er til að verði unnin sem samvinnuverkefni eru:
Af þessum verkefnum er brú yfir Hornafjarðarfljót fullhönnuð og hægt að hefja framkvæmdir á árinu og brú yfir Ölfusá er á lokastigi í hönnun.