Íslensk erfðagreining hefur þurft að draga úr sýnatökum vegna skorts á sýnatökupinnum. Hluta sýnataka hefur verið frestað, en Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, segir að rúmlega helmingi færri sýnatökur fari nú fram á dag en áætlað var.
Skortur er á sýnatökupinnum í heiminum líkt og kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í gær.
„Við erum að glíma við það sama,“ segir Þóra í samtali við mbl.is. Ekki er vitað hvenær Íslensk erfðagreining fær fleiri sýnatökupinna.
Áætlanir gerðu ráð fyrir að Íslensk erfðagreining tæki um þúsund sýni á dag en næstu daga verða þær færri en 500 á dag. Þeir sem þurfa að fresta sýnatökum fá forgang þegar aftur verður opnað fyrir bókanir, að sögn Þóru.
Tekið skal fram að ekki er útlit fyrir að heilbrigðisyfirvöld þurfi að fækka sýnatökum vegna skortsins. Þetta kom fram í máli sóttvarnalæknis á blaðamannafundinum í gær.