10 smitaðir og 100 í sóttkví í Eyjum

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Sigurður Bogi

Síðustu daga hafa komið upp 10 staðfest tilfelli kórónuveirunnar í Vestmannaeyjum. Tilfellin eru ekki öll með augljósa tengingu innbyrðis. Það eina sem virðist tengja þau öll saman eru íþróttakappleikir á höfuðborgarsvæðinu sem einstaklingarnir eða fólk þeim tengt sótti sem áhorfendur og/eða leikmenn. Það hefur þó ekki verið staðfest.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.

Þrjú ný tilfelli bættust við í dag og er um að ræða einstaklinga sem tengjast fyrri staðfestum tilfellum. Eitt þeirra tengist Íþróttamiðstöðinni í Eyjum og því hefur verið tekin sú ákvörðun að loka henni tímabundið á meðan málið er skoðað nánar.

Um hundrað manns hafa þurft að fara í sóttkví í kringum þessi 10 staðfestu tilfelli og auk þess er talsverður fjöldi fólks í sóttkví vegna dvalar á áhættusvæðum.

Loka hefur þurft leikskólanum Sóla tímabundið og í gærkvöldi var ákveðið að 7. bekkir Grunnskóla Vestmannaeyja væru heima í dag. Ástæðan fyrir því var að nemendur þar tengjast tilfellum og auk þess hefur verið óvenju mikið um veikindi í þessum árgangi.

Sýni voru tekin frá öllum nemendum sem eru með einkenni og niðurstöður sýna sem tekin voru í gær eru neikvæðar. Sýni voru tekin hjá öðrum nemendum með einkenni í árgangnum í dag og er niðurstaðna að vænta í kvöld og á morgun.

Á laugardag er fyrirhugað að halda opinn fund á netinu þar sem íbúum býðst að spyrja fulltrúa aðgerðastjórnar spurninga og fá svör í útsendingu. Fundurinn verður kynntur vel áður en af honum verður, samkvæmt tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert