Þær leiðir sem boðaðar eru í stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og greiðslu hlutabóta á móti skertu starfshlutfalli, sæta gagnrýni í umsögnum sem borist hafa til velferðarnefndar Alþingis í gær og fyrradag.
„Að óbreyttu mun Alþýðusambandið ekki geta mælt með því við félagsmenn aðildarfélaga sinna að þeir taki á sig skerðingu á starfshlutfalli með þeirri tekjuskerðingu sem núverandi frumvarp felur í sér,“ segir í umsögn ASÍ.
Þar er því haldið fram að frumvarpið víki í veigamiklu atriði frá því sem áður hafi verið kynnt. Er það sérstaklega ákvæðið um að laun frá atvinnurekanda og atvinnuleysisbætur geti aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns og að hámarksþakið verði 650 þúsund kr.
„Fyrir einstakling á lægstu launum þýðir þetta að heildartekjur fyrir skatta fara úr 317.000 í tæplega 254.000 kr. á mánuði og fyrir einstakling með 400.000 kr. laun á mánuði í 320.000. Þessir hópar geta ekki tekið á sig slíka lækkun tekna,“ segir í umsögn ASÍ.