Líklegt að 1.000 smitist

Sóttvarnalæknir kallaði saman þennan hóp vísindamanna til þess að gera …
Sóttvarnalæknir kallaði saman þennan hóp vísindamanna til þess að gera spálíkan um líklega þróun COVID-19 faraldursins sem nýst gæti við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búist er við því að fyrir lok maí 2020 hafi 1.000 manns verið greindir með kórónuveiruna á Íslandi, en talan gæti náð rúmlega 2.000 samkvæmt svartsýnustu spám.

Þetta eru fyrstu niðurstöður spálíkans sem unnið hefur verið af vísindamönnum frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala sem gerðar hafa verið opinberar á vef Háskóla Íslands.

Sóttvarnalæknir kallaði saman þennan hóp vísindamanna til þess að gera spálíkan um líklega þróun COVID-19 faraldursins sem nýst gæti við ákvarðanatöku um viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu og kynnti hópurinn fyrstu niðurstöður í lógistísku spálíkani á upplýsingafundi Almannavarna í gær.

Helstu niðurstöður spálíkansins eru, eins og áður segir, að líklegt er að 1.000 manns smitist á Íslandi. Búist er við því að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu vikum apríl og verði sennilega 600 manns, en gæti náð 1.200 manns samkvæmt svartsýnustu spám.

Ellefu veikist alvarlega

Búist er við að á meðan faraldurinn gengur yfir muni um 60 manns þarfnast aðhlynningar í innlögn á sjúkrahúsi, en samkvæmt svartsýnustu spám gætu þeir orðið 200.

Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður um eða eftir miðjan apríl, en þá er ráðgert að um 40 geti verið inniliggjandi, en allt að 120 samkvæmt svartsýnustu spám.

Búist er við því að um ellefu einstaklingar veikist alvarlega og þarfnist gjörgæslu á tímabilinu, en samkvæmt svartsýnustu spám gætu það orðið 50 einstaklingar.

Spálíkan uppfært reglulega

Greiningarvinnan mun halda áfram og spálíkanið verður uppfært reglulega með nýjum upplýsingum. Hafa ber í huga að vegna fámennis geta tölurnar um fjölda greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags sem hefur áhrif á niðurstöður spálíkansins. 

Spálíkan vísindamanna HÍ, landlæknis og Landspítala

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka