Höskuldur Daði Magnússon
„Við reiknum með að geta hafið skólastarf í næstu viku, svo framarlega sem það heltast ekki fleiri úr lestinni. Það fór nú einn í sóttkví í dag,“ segir Sævar Þór Helgason, skólastjóri grunnskólans í Hveragerði. Þar í bæ eru hátt í þrjú hundruð manns í sóttkví, flestir starfsmenn og nemendur grunnskólans.
Óhætt er að segja að smit af völdum kórónuveirunnar, dvöl í sóttkví og samkomubann sem gekk í gildi í byrjun vikunnar hafi sett svip sinn á skólastarf víða um land.
Þrír leikskólar eru lokaðir í Reykjavík vegna kórónuveirunnar, Stakkaborg við Stakkahlíð, Laufskálar í Grafarvogi og Nóaborg í Hlíðunum. Þá er Háteigsskóli lokaður vegna þriggja smita meðal starfsmanna. Klettaskóla hefur sömuleiðis verið lokað um óákveðinn tíma vegna smits hjá starfsmanni.
Í Mosfellsbæ hefur einum leikskóla, Hlaðhömrum, verið lokað til miðvikudagsins 25. mars en aðrir leik- og grunnskólar eru opnir með takmörkunum. Ekki hefur komið til lokana í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ eða á Seltjarnarnesi vegna kórónuveirunnar.
Allir nemendur og starfsmenn Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga hafa verið settir í sóttkví eftir að starfsmaður þar greindist með kórónuveirusmit. Verður fólkið í sóttkví til 30. mars.
Í Vestmannaeyjum hefur leikskólanum Sóla verið lokað eftir að starfsmaður greindist með veiruna. Samkvæmt niðurstöðum rakningarteymis fara 27 af 29 starfskonum Sóla í sóttkví og nemendur af einum kjarna hans. Auk þess eru þrír kennarar í grunnskóla bæjarins og einn stuðningsfulltrúi í sóttkví.