Ísland tekur þátt í ferðabanni ESB

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti forsvarsmönnum Evrópusambandsins um ákvörðunina fyrir …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti forsvarsmönnum Evrópusambandsins um ákvörðunina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. mbl.is/​Hari

Rík­is­stjórn Íslands hef­ur til­kynnt fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins að Ísland muni taka þátt í ferðabanni Evr­ópu­sam­bands­ins til að draga úr út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Ákvörðunin var tek­in á rík­is­stjórn­ar­fundi nú í morg­un. Þetta staðfest­ir Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra í sam­tali við mbl.is.

Evr­ópu­sam­bandið tók ákvörðun um að loka ytri landa­mær­um sín­um fyr­ir ferðamönn­um utan sam­bands­ins og fyr­ir ónauðsyn­leg­um ferðalög­um á þriðju­dag­inn síðastliðinn, 17. mars, og gild­ir það í 30 daga.

Alþjóðlegt og svæðis­bundið sam­starf mik­il­vægt

„Þrátt fyr­ir að ferðabann hafi ekki verið of­ar­lega hjá okk­ar sér­fræðing­um sem ár­ang­urs­rík aðferð gegn út­breiðslu kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins þá hef­ur verið biðlað til okk­ar að taka þátt í lok­un landa­mæra ESB- og Schengen-ríkj­anna og við eig­um óhægt um vik að skor­ast und­an því,“ seg­ir Áslaug Arna í sam­tali við mbl.is og bæt­ir við sam­starf Evr­ópu­ríkja sé mik­il­vægt.

„Alþjóðlegt og svæðis­bundið sam­starf ríkja er mik­il­vægt í bar­átt­unni við veiruna og við þurf­um á sam­starfi ESB- og EES-ríkj­anna að halda. Á grund­velli þess og mati á okk­ar hags­mun­um þá mun­um við taka þátt í aðgerðum Schengen-ríkj­anna og loka hér ytri landa­mær­um.“

Hún tek­ur þó fram að þótt að Ísland muni taka þátt í þess­um aðgerðum þá sé ljóst að komu ferðamanna til Íslands frá lönd­um utan Schengen-svæðis­ins sé að lang­mestu sjálf­hætt. Bret­ar eru enn þá skil­greind­ir sem rík­is­borg­ar­ar ESB og því verður áfram heim­ilt að fljúga til og frá Bretlandi.

Sér­stakt til­lit verði tekið til Íslands

Bannið mun ekki hafa bein áhrif á vöru­flutn­inga held­ur á þetta ein­ung­is við um ferðamenn utan Schengen sem verður þá ekki leng­ur heim­ilt að koma til lands­ins. Þá eru ákveðnar starfs­stétt­ir und­anþegn­ar bann­inu, þ.á m. starfs­fólk á sviði heil­brigðisþjón­ustu og þeir sem sinna farm­flutn­ing­um.

„En ég, for­sæt­is­ráðherra og ut­an­rík­is­ráðherra höf­um í öll­um okk­ar sam­töl­um við ESB ít­rekað bent á okk­ar sér­stöðu inn­an svæðis­ins. Við erum eyja langt frá öðrum lönd­um og við eig­um meira und­ir flug­sam­göng­um og við höf­um því beðið um að sér­stakt til­lit verði tekið til okk­ar þegar við sjá­um fyr­ir að við vilj­um fara aflétta þess­ari lok­un,“ tek­ur Áslaug Arna fram.

Íslend­ing­ar munu áfram geta ferðast til þeirra Schengen-ríkja sem ekki hafa lokað landa­mær­um sín­um gagn­vart öðrum Schengen-ríkj­um en það eru mörg lönd sem hafa nú þegar lokað innri landa­mær­um sín­um. Bannið snýr að fram­kvæmd á landa­mæra­eft­ir­liti en hef­ur ekki bein áhrif á heim­ild­ir flug­fé­laga til að fljúga til landa.

Til­kynn­ing Stjórn­ar­ráðs Íslands um reglu­gerð um lok­un fyr­ir ferðamenn utan Schengen.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert