Níu öndunarvélar bætast við í næstu viku

Frá gjörgæsludeild Landspítalans. Myndin er úr safni.
Frá gjörgæsludeild Landspítalans. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn gerir ráð fyrir því að fá níu öndunarvélar til viðbótar í næstu viku sem geta nýst við gjörgæslu. Þess er vænst að fimm þeirra verði gjöf og komi frá sömu einkaaðilum og hafa þegar gefið spítalanum fimmtán vélar.  

Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Hinar fjórar vélarnar kaupir Landspítalinn sjálfur í gegnum útboð og eru þær af fullkomnustu gerð. Fara þær beint á gjörgæsluna. Spítalinn veit minna um vélarnar sem hann fær gefins en að sögn Önnu Sigrúnar þiggja þau alla þá aðstoð sem gefst. Markaðurinn bjóði ekki upp á annað eins og staðan er núna, enda er mikil eftirspurn eftir öndunarvélum þessa dagana.

Alls verða öndunarvélar fyrir gjörgæslu því að öllum líkindum orðnar 38 í næstu viku.

„Miðað við stöðuna eins og við áætlum hana í næstu viku gerum við ráð fyrir að vera á góðu róli hvað þennan þátt varðar,“ segir hún, spurð út í nýtingu vélanna í tengslum við kórónuveiruna.

„Í öllu falli er þetta alltaf afar myndarleg gjöf.“

Anna Sigrún bætir við að fleiri einkaaðilar séu að reyna að útvega spítalanum öndunarvélar, auk þess sem spítalinn eigi eftir að fá fleiri slíkar í gegnum útboð.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert