Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi hefur greinst með smit af kórónuveirunni. Unnið var að því í gær að rekja ferðir hans og meta þörf fyrir sóttkví annarra starfsmanna spítalans.
Líklegt þótti að 2-3 aðrir hjúkrunarfræðingar yrðu sendir í sóttkví. Þá hefur einnig komið upp smit á veiru- og sýklafræðideild Landspítalans og hafa fjórir starfsmenn deildarinnar verið sendir í sóttkví.
Ellefu manns, læknar, sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hafa síðan á þriðjudag verið í sóttkví á Húsavík vegna návígis við erlenda ferðamanninn sem fyrstur hér á landi er talinn hafa látist af völdum veirunnar. Fleiri sem sinntu honum eru í heimasóttkví. Þrír starfsmenn Alþingis hafa greinst með veiruna. Af þessum sökum hefur starfsáætlun þingsins verið breytt. Einungis verður um sinn boðað til þingfunda um mál sem tengjast kórónuveirufaraldrinum, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.