„Við erum mjög, mjög þakklát“

Hópur íslenskra aðila stendur að gjöfinni. Mynd úr safni.
Hópur íslenskra aðila stendur að gjöfinni. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Þetta eru alvöru öndunarvélar. Við eigum 26 slíkar núna og nú erum við vonandi að fá heilar fimmtán til viðbótar.“ Þetta segir Anna Sigrún Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðarmaður for­stjóra Land­spít­al­ans, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag að Landspítalinn hefði fengið að gjöf öndunarvélar sem komu til landsins frá Bandaríkjunum.

„Við gerum ráð fyrir að þær séu um fimmtán,“ segir Anna Sigrún en setur þann fyrirvara að eftir eigi að ganga úr skugga um að vélarnar séu nothæfar; yfirfara þær og athuga til að mynda hvort íhluti kunni að vanta.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

Hópur íslenskra aðila

„Það er gjörsamlega búið að vera stríðsástand á þessum markaði en við teljum þó að hér sé um mjög áreiðanlega sendingu að ræða.“

Hópur íslenskra aðila stendur að gjöfinni en þeir vilja að sögn Önnu Sigrúnar ekki láta nafns síns getið að svo stöddu. Um vika er síðan hún fékk veður af því að aðilarnir væru farnir af stað í að undirbúa kaup á vélunum og flutning þeirra til Íslands.

„Þetta er afar mikilvægt framlag. Við erum mjög, mjög þakklát fyrir það að einhver hafi staðið í þessu,“ segir hún og bendir á að vélarnar séu af tegund sem starfsfólk Landspítalans er vant að fást við.

„Þetta eiga að vera vélar sem við þekkjum. Það skiptir höfuðmáli.“

Eykur möguleika á að standast áhlaupið

Spurð hvaða þýðingu þessi sending hafi fyrir viðbragðsmöguleika spítalans í þessum faraldri segir Anna Sigrún að þetta breyti miklu.

„Þetta eykur möguleikana okkar á að standast þetta áhlaup alveg gríðarlega,“ segir hún en bætir við að annar takmarkandi þáttur í gjörgæslumeðferð felist alltaf í starfsfólki.

Uppfært 17.10: Þrjár af öndunarvélunum fimmtán sem komu til landsins í dag geta nýst við gjörgæslu. Hinar tólf eru svokallaðar stuðningsvélar sem notaðar eru á öðrum deildum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert