Höskuldur Jónsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og forstjóri ÁTVR, er látinn, 83 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi á Kanaríeyjum, þar sem hann var í orlofi með eiginkonu sinni, í kjölfar skurðaðgerðar vegna sýkingar.
Höskuldur var fæddur á Mýri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp 9. ágúst 1937, sonur þeirra Halldóru Maríu Kristjánsdóttur og Jón Guðjóns Kristjáns Jónssonar. Höskuldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1957, námi í viðskiptafræði frá HÍ 1963 og las í kjölfar þess þjóðfélagsfræði við Háskólann í Haag í Hollandi. Eftir háskólanám hóf Höskuldur störf hjá hinu opinbera og byrjaði í fjármálaráðuneytinu árið 1965. Var þar fyrst fulltrúi, svo deildarstjóri, skrifstofustjóri og loks ráðuneytisstjóri. Árið 1986 var Höskuldur skipaður forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og leiddi hann fyrirtækið í gegnum margvíslegar breytingar og kom með nýjar áherslur í starfsemi þess. Forstjórastarfi ÁTVR gegndi Höskuldur út ágúst 2005.
Um dagana sinnti Höskuldur fjölmörgum trúnaðarstörfum með setu í stjórnum sjóða og stjórna fyrir hönd hins opinbera. Var einnig um nokkurra ára skeið formaður samninganefndar ríkisins í launamálum og átti sæti í stjórnum lífeyrissjóða. Höskuldur var forseti Ferðafélags Íslands frá 1985 til 1994, enda mikill útivistar- og fjallamaður. Má þess geta að skáli FÍ í Hrafntinnuskeri við Laugaveginn er eftir honum nefndur og heitir Höskuldsskáli. Höskuldur var handhafi gullmerkis FÍ og jafnframt heiðursfélagi. Hann var mjög virkur í starfi félagsins, í vinnuferðum, kvöldvökum og sinnti fararstjórn.
Eftirlifandi eiginkona Höskuldar er Guðlaug Sveinbjörnsdóttir sjúkraþjálfari og eiga þau þrjá uppkomna syni; Þórð, Sveinbjörn og Jón Grétar. Barnabörnin eru þrjú.