Ekki fleiri en 10 saman í Vestmannaeyjum

Samkomubann tíu einstaklinga eða fleiri tekur gildi í Vestmannaeyjum klukkan 18 í dag. Þetta eru tilmæli aðgerðastjórnar almannavarna í Vestmannaeyjum, en þau eru gefin út í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. „Þetta er út af þessari hröðu útbreiðslu sem er þar og meðan þeir eru að átta sig á þessu óskuðu þeir eftir því að fá að herða reglurnar og setja upp sérstakar reglur í Vestmannaeyjum og sóttvarnalæknir samþykkti það,“ segir Víðir.

Eiga þessar fjöldatakmarkanir við um fjölda í hverju rými, hvort sem um er að ræða veitingastaði, verslanir eða mötuneyti.

Þá fær fólk ekki aðgang að íþróttamannvirkjum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum, auk þess sem starfsemi þar sem nálægð er mikil, svo sem á hárgreiðslustofum, snyrtistofum og nuddstofum, er bönnuð.

Lítið og náið samfélag

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin hafi verið tekin í dag og ákveðið hefði verið að hún tæki strax gildi.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

„Við töldum ástæðu til að taka þessa ákvörðun í dag. Við erum lítið samfélag og mjög náið og við höfum fengið smit sem er ekki hægt að rekja á einn og sama staðinn, það er eins og þetta komi úr ólíkum áttum. Við erum auðvitað að reyna að hefta útbreiðsluna, það er það sem vakir fyrir okkur.

Fólk er bara með okkur í því og mér heyrist á íbúum hérna að menn séu tilbúnir í það. Menn hafa takmarkað ferðir sínar mikið hér eins og annars staðar.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Nánar á vef Eyjafrétta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka