„Þetta er mikið högg. Ég hef heyrt um sjúkraþjálfara sem eru nú með 20% af þeim verkefnum sem þeir eru vanir. Algengast er að sjúkraþjálfarar á einkastofum séu að fá um það bil 60% af verkefnum sem áður voru,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Kórónuveirufaraldurinn kemur sér afar illa fyrir ýmsar þjónustugreinar í samfélaginu. Mörg einkafyrirtæki sjá fram á magra tíma.
Unnur segir að sjúkraþjálfun sé heilbrigðisþjónusta og megi ekki falla niður eigi árangur af aðgerðum og meðferðum að haldast. Sjúkraþjálfun sem fer fram á stofnunum, til að mynda spítölum og öldrunarheimilum, heldur dampi að hennar sögn en takmarkanir eru á göngudeildarþjónustu.
„Á einhverjum einkastofum hefur verið ákveðið að vinna bara annan hvern dag eða skipta starfsfólki í tvo hópa til að minnka áhættu á smiti. Þá er reynt að haga málum þannig að sem fæstir séu á biðstofum í einu.“
Gauti Torfason, eigandi rakarastofunnar Herramanna í Kópavogi, segir að margir veigri sér við að koma á stofuna vegna ástandsins, sérstaklega eldra fólk. Til skoðunar sé að bjóða upp á sérstaka tíma til að taka á móti þessum hópi. „Áður en þetta skall á voru hér raðir út úr dyrum en nú er allt miklu rólegra. Við erum með fimm stóla en klippum nú bara í þremur svo nóg pláss sé á milli fólks,“ segir rakarinn, sem leggur nú drög að tvískiptum vöktum ef ástandið skyldi versna.
Í umfjöllun um áhrif og afleiðingar kórónuveirunnar í Morgunblaðinu í dag segir Hrönn Róbertsdóttir, eigandi tannlæknastofunnar Brossins, að faraldurinn sé þegar farinn að hafa mikil áhrif á hennar starfsstétt. Einhverjar minni stofur séu farnar að huga að lokun eða hafi þegar lokað.