„Allur aðfangaflutningur er auðvitað umtalsvert erfiðari. Þá hefur verið mikil vinna að moka snjó frá og koma inn heyi,“ segir Hávar Örn Sigtryggsson, bóndi á Hriflu í Þingeyjarsveit, í Morgunblaðinu í dag.
Að sögn Hávars hefur gríðarmikill snjór safnast víða á Norðurlandi, en að því er fram kemur í tölum frá Veðurstofu Íslands var 254 sentímetra djúpur snjór á Skeiðsfossi í Fljótum í Skagafirði. Til samanburðar er dýpsti snjór sem mælst hefur hér á landi 279 sentímetrar, en sú mæling fór sömuleiðis fram á Skeiðsfossi, árið 1885.
Spurður hvort snjókoman í ár hafi torveldað búskap kveður Hávar já við. Bændur láti það þó ekki á sig fá. „Sveitarfélagið stendur fyrir umfangsmiklum mokstri sem dekkar þetta að mestu leyti. Það hafa þó myndast afar stórir skaflar víða,“ segir Hávar en bætir þó við að staðan á sauðfénu sé góð. Eins hafi ágætlega tekist að hemja hrossin til þessa. „Hrossin eru í góðu skjóli úti við, en allar girðingar eru þó komnar á kaf. Um leið og heyið minnkar geta þau farið á flakk þannig að við reynum að gefa þeim ríflega til að halda þeim rólegum. Staðan á sauðfénu er jafnframt góð,“ segir Hávar.
Aðspurður segist Hávar vonast til að hlýna taki í veðri fljótlega, enda styttist í sauðburð. „Ef snjórinn endist fram að sauðburði í lok apríl eru menn í vandræðum. Við erum þó ekkert farnir að örvænta ennþá, en vonandi fer að hlýna fljótlega,“ segir Hávar.