Rannsókn sýnir góða virkni lyfjablöndu gegn COVID-19

Róbert Wessman er forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen.
Róbert Wessman er forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Frönsk rannsókn á virkni lyfjablöndu gegn COVID-19-sjúkdómnum gefur góð fyrirheit í baráttunni gegn sjúkdómnum. Rannsóknin var þó lítil í sniðum en lyfjaframleiðandinn Alvogen ætlar að gera stærri rannsóknir á sömu lyfjablöndu og fleiri veirulyfjum.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, bendir á niðurstöður frönsku rannsóknarinnar í færslu á Instagram. „Fyrsta skilvirka lyfið gegn COVID-19?“ skrifar hann undir mynd sem sýnir niðurstöðurnar.

Gefur mjög sterka vísbendingu um að lyfjablandan virki

Rannsóknin sýnir að blanda malaríulyfsins Chloroquine (Hydrochloroquine) og sýklalyfsins Azithromycin (Zithromax) hafi góða virkni gegn COVID-19-sjúkdómnum.

Rannsóknin tók þó ekki til nema 36 einstaklinga sem þykir ekki mikið en hún var samt „alveg nægilega stór til að gefa mjög sterka vísbendingu um að þessi blanda virki“ að sögn Róberts.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, greindi frá því í samtali við mbl.is að þegar væri búið að taka þessa lyfjablöndu til notkunar hér á landi. Chloroquine er 86 ára gamalt malaríulyf og Azithromycin er sýklalyf.

Tekur of langan tíma að þróa ný lyf

„Miðað við 36 manna rannsókn þá lítur þetta mjög vel út. Það er mjög erfitt að ætla koma með ný lyf inn á markað núna því það tekur miklu lengri tíma að þróa ný lyf. Það eru til mikið að lyfjum sem virka á veirur, bæði ofnæmislyf og önnur veirulyf, og það er því miklu auðveldara að finna ný not fyrir eldri lyf heldur en að þróa ný lyf,“ segir Róbert um frönsku rannsóknina.

Góðu fréttirnar eru góð virkni þessara lyfja en líka að bæði lyf eru samþykkt og eru á markaði auk þess að vera framleidd af mörgu lyfjafyrirtækum. Slæmu fréttirnar eru þær að spurn eftir lyfjunum mun aukast gríðarlega á næstu vikum og hætta er á því að þau seljist upp að mati Róberts.

Vill 200 manna rannsókn á fleiri lyfjablöndum

Alvogen hefur sótt um leyfi til að framkvæma stórar klínískar rannsóknir á bæði sömu lyfjablöndu og var rannsökuð í Frakklandi og öðrum lyfjablöndum. Þær rannsóknir yrðu á 200 einstaklingum og ef Alvogen fær leyfi til þess að framkvæma þær telur Róbert að einhverjar niðurstöður myndu fást innan tveggja til þriggja vikna.

„Markmiðið okkar er að finna hvaða eldri lyf eru á markaði er hægt að nota í dag vegna þess að þróun nýs lyfs frá grunni tekur allt of langan tíma. Við ætlum þá að birta þær niðurstöður þannig að menn geti haft þá valkosti og við erum ekki endilega að hugsa um okkar lyf heldur almennt hvaða kostir eru í stöðunni og lítum í raun og veru á þetta sem okkar framlag í baráttunni,“ bætir hann við.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:25. Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að lyfið Chloroquine sé 70 ára gamalt. Hið rétta er að lyfið var fyrst þróað árið 1934 og frá því eru liðin 86 ár.

Höfuðstöðvar Alvogen eru á Íslandi en rannsóknirnar myndu fara fram …
Höfuðstöðvar Alvogen eru á Íslandi en rannsóknirnar myndu fara fram á vegum indversks fyrirtækis í eigu Alvogen. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert