Smitaðist í skíðaferð

Stefán Hilmarsson segist þakklátur fyrir að hafa aðeins fengið mild …
Stefán Hilmarsson segist þakklátur fyrir að hafa aðeins fengið mild einkenni. Hann hefur getað unnið heima þar sem hann er nú í einangrun. Hinir í fjölskyldunni hafa ekki smitast af veirunni. mbl/Styrmir Kári

Ég hef að líkindum haft veiruna með mér frá Selva í Gardena-dalnum. Þangað hélt ég í skíðafrí ásamt eiginkonu og sonum hinn 28. febrúar, en við snerum heim viku síðar. Svæðið var ekki komið í flokk skilgreindra hættusvæða þegar við héldum utan, en ef ég man rétt þá vöknuðum við við þær fregnir á fyrsta morgni ytra að það væri komið í þann flokk,“ segir tónlistarmaðurinn Stefán Hilmarsson.

Spritt og klútar

„Við vorum á eigin vegum, ekki í hópi landa okkar og hittum reyndar ekki einn einasta Íslending í ferðinni. Auðvitað áttar maður sig ekki á því hvar eða hvernig þetta hefur verkast, en mér dettur einna helst í hug að þetta hafi komið af posa. Við höfðum þó með okkur býsn af handspritti og klútum og reyndum að passa vel upp á okkur ytra. En maður fær ekki öllu varist.

Hiti og hrollur

Ég var í góðu lagi allan tímann ytra og fann fyrst til einkenna eftir að heim var komið, þegar ég var nýbúinn að taka upp úr töskunum. Ég var vel slappur fyrst; með hita, hroll og hefðbundin flensueinkenni. Við vissum að við þyrftum öll í sóttkví við heimkomuna. Um leið og ég varð einkenna var stúkaði ég mig af frá hinum að svo miklu leyti sem hægt var,“ segir hann.
„Sem betur fer hef ég ekki verið mikið veikur hingað til. Strax daginn eftir var ég skárri og svo til hitalaus. Ég var þó svolítið þungur fyrir brjósti næstu þrjá til fjóra daga, en samt ekki þannig að það væri mér óbærilegt. Þeim þyngslum létti smám saman og síðan hefur þetta virkað sem nef- og ennisholukvef, „þurrt“ að kalla; harla lítið slímlos. En þetta hefur rjátlast af mér hægt og bítandi.

Fúlt að missa út íþróttaviðburði

Að óbreyttu lýkur einangrun í næstu viku. Ég hef annars unnið hér heima alla daga, en ég starfa hjá STEFi og mín beið krefjandi og tímafrekt verkefni við heimkomu, sem ég þurfti að takast á við og hefur það tekið drjúgan tíma. Þess utan hefur maður horft eitthvað aðeins á sjónvarp á kvöldin og lesið svolítið, eins og gengur. Mér hefur reyndar þótt fúlt að missa út alla íþróttaviðburði og er satt að segja hálfmiður mín yfir því að Masters-mótið í golfi hefur verið slegið af, svo dæmi sé tekið, en það er mikill vorboði í mínu lífi ár hvert. En auðvitað þýðir ekkert um það að fást.“

Ítarlegt viðtal er við Stefán í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert