Útfærsla heilbrigðisráðherra á hertu samkomubanni fylgir í einu og öllu tillögum sóttvarnalæknis þess efnis. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is. Meðal nýmæla þar er sérstök undanþága fyrir matvöru- og lyfjaverslanir, sem var ekki að finna í fyrsta minnisblaði sóttvarnalæknis, þar sem mörkin voru þá við 100 manns og ekki var talin þörf á slíkri undanþágu.
Vika er síðan samkomubann tók gildi og voru mörk sett við 100 manns, en á miðnætti aðfaranótt þriðjudags verður sú tala færð niður í 20.
Aðspurð segist Svandís telja að bannið hafi tekist vel fram að þessu. „Ég er full þakklætis gagnvart öllum sem hafa þurft að leggja töluvert á sig,“ segir Svandís og nefnir sem dæmi starfsfólk Strætó, skóla og ýmissa fyrirtækja.
Grunnskólar og leikskólar verða enn opnir með þeim takmörkunum sem verið hafa undanfarna viku. Svandís segir að ekki hafi verið talin ástæða til að loka þessum stofnunum og nefnir hún sömu ástæður og áður hafa verið gefnar. Smit séu ólíklegri og vægari hjá börnum, auk þess sem mikilvægt sé að framlínustarfsfólk geti sinnt sínum störfum en þurfi ekki að vera heima með börnin.
Spurð út í hertar aðgerðir og möguleikann á því að gripið verði til útgöngubanns í dymbilviku segir Svandís að ekki sé hægt að taka neinar ákvarðanir svo langt fram í tímann nú. „Það er alveg ljóst að við eigum nokkur verkfæri eftir í verkfærakistunni,“ segir hún og vísar til aðgerða sem önnur ríki hafa gripið til.
Svandís segir eftirtektarvert að flest ný smit greinist enn hjá einstaklingum sem eru í sóttkví. Það sé til marks um hve öflugt smitrakningateymi almannavarna sé, en enn er unnið að því að meta hvert einasta smit. „Fólk er oft tilbúið með þá vinnu, og sjálft búið að rekja ferðir sínar og hverja það hefur umgengist.“
Fréttin var uppfærð klukkan 23:33 og skýrt nákvæmar hví undanþága matvöru- og lyfjaverslanna var ekki að finna í fyrra minnisblaði sóttvarnarlæknis.