Engin próf verða haldin í húsakynnum Háskóla Íslands á þessari önn. Þetta kemur fram í pósti sem Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, sendi nemendum við skólann í kvöld. Háskóli Íslands hefur verið lokaður frá 15. mars þegar samkomubann tók gildi.
Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun til að fara yfir stöðu mála varðandi kórónuveirunnar þar sem ákveðið var að framkvæmd prófa og námsmat verður í samræmi við ákvörðun háskólaráðs 20. mars sl. sem heimilar fræðasviðum og deildum að ákveða tilhögunina í samráði við kennslusvið.
Kennarar og deildir geta þannig farið mismunandi leiðir við að útfæra námsmat í stað hefðbundinna prófa í húsakynnum Háskólans. Umsjónarkennarar í samráði við fræðasvið og deildir munu leitast við að kynna fyrir helgi breytta framkvæmd prófa og námsmats, og eigi síðar en 30. mars nk.
Stjórnendur skólans hvetja fræðasvið, deildir og kennara til að taka tillit til þeirra krefjandi aðstæðna sem nú eru uppi og létta álagi af nemendum í tengslum við námsmat þegar hægt er. Markmiðið er að nemendur geti lokið þeim námskeiðum sem þeir eru skráðir í á vormisseri 2020 og þeim námskeiðum haustmisseris 2019 sem eru á auglýstri próftöflu vegna sjúkra- og endurtökuprófa.
Haft verður samráð við fulltrúa nemenda um breytta framkvæmd prófa og námsmats eftir því sem kostur er, að því er segir í pósti rektors.