Foreldrar hvetji börn til að hætta að veipa

Tómas segir að veipið veiki varnir fólks gegn sýkingum.
Tómas segir að veipið veiki varnir fólks gegn sýkingum. Ljósmynd/Úr myndasafni mbl.is

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir við Landspítalann, hefur miklar áhyggjur af notkun ungmenna á rafsígarettum í miðjum faraldri vegna kórónuveirunnar.

„Nú á tímum Covid-19 faraldurs ættu foreldrar að leggja hart að börnum sínum að hætta veipi. Enda er gufan óþverri sem eykur álag á lungu sem eiga í fullu tré við að hrista af sér vírusinn,“ skrifar Tómas á facebook-síðu sína.

Þar bætir hann við að þótt enn vanti rannsóknir á tengslum veips við COVID-19 þá sýni eldri rannsóknir að veip skaðar yfirborð lungnaslímhúðar og veiki þannig varnir þeirra gegn sýkingum.

Tómas Guðbjartsson læknir.
Tómas Guðbjartsson læknir. mbl.is/RAX

Trúa því að þetta sé saklaust 

Tómas segist í samtali við mbl.is hafa haft miklar áhyggjur af veipfaraldrinum hérlendis, sérstaklega hjá grunnskóla- og framhaldsskólanemum en hér á landi notar allt að fjórðungur framhaldsskólanema rafsígarettur daglega. Hlutfallið er einnig hátt á meðal grunnskólanema. „Í langflestum tilvikum eru þetta ekki einstaklingar sem hafa verið að reykja eða hafa áform um slíkt,“ segir hann og nefnir að þrátt fyrir að rannsóknir séu ekki fyrir hendi á tengslum veips og kórónuveiru þá skerði veipið varnarkerfi lungnanna.

„Áhyggjur mínar beinast að þessum stóra hópi unglinga sem er að nota þetta sem trúir því að þetta sé saklaust. Mér finnst að foreldrar þurfi að stíga fram því núna er einmitt tíminn til að taka þessa umræðu.“

Hann bætir við að þeir sem hafa notað rafsígarettur til að reyna að hætta að reykja ættu að prófa að nota frekar nikótínplástra, tyggjó eða púst í ljósi þeirra aðstæðna sem núna eru uppi.

Karlmaður í Washington að veipa.
Karlmaður í Washington að veipa. AFP

Á gjörgæslu í New York

Tómas bendir á varnarorð borgarstjóra New York og hans heilbrigðisteymis um að þeir hafi séð dæmi um að ungt fólk sem hefur veipað hafi lent á gjörgæslu út af kórónuveirunni en það hefur ekki verið með undirliggjandi sjúkdóma. Þar í borg er notkun á rafsígarettum mjög algeng.

„Það er ekki hægt að sanna tengsl en menn hafa áhyggjur,“ segir hann. „Við erum öll inni í stormi og menn eru að reyna að átta sig á hlutunum. Þangað til er rétt að benda fólki á hvernig það getur búið í haginn sjálft og leift lungunum og heilsunni að njóta vafans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert