Hreinsistöð óstarfhæf vegna sótthreinsiklúta

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað …
Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, t.a.m. sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. Ljósmynd/Mats Wibe Lund/Veitur

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða er nú óstarfhæf og fer óhreinsað skólp í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, til að mynda sótthreinsiklútum, í fráveitukerfinu. 

Svo virðist sem magn slíkra klúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og hefur það skapað mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk, að því er segir í tilkynningu frá Veitum. 

Tilkynning vegna þessarar aukningar var send út fyrir helgi þar sem fólk var hvatt til að henda alls ekki rusli eins og blautklútum í klósett en ekki er að sjá að það hafi borið mikinn árangur.

„Nú er svo komið að stöðva hefur þurft dælur og verið er að hreinsa þær og annan búnað stöðvarinnar. Við hvetjum fólk til að nota ekki klósettin sem ruslafötur. Blautklútar, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga heima í ruslinu,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert