Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að síminn stoppi ekki hjá stofnuninni þar sem fjölmörg fyrirtæki eru að hafa samband vegna uppsagna og annarra úrræða tengdum kórónuveirufaraldrinum.
Að sögn Unnar hefur síminn ekki stoppað í allan morgun á skrifstofum Vinnumálastofnunar. Ekki liggur fyrir tölfræði um hversu margar uppsagnirnar eru orðnar en ljóst að þær eru fjölmargar. Margir þeirra sem hringja eru að óska eftir leiðbeiningum varðandi uppsagnir og eins atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.
„Við höfum unnið þetta þannig að við gerum ráð fyrir að þúsundir þurfi á tímabundnum úrræðum að halda,“ segir Unnur en líkt og greint var frá í síðustu viku hafa verið sett lög um atvinnuleysistryggingar á minnkuðu starfshlutfalli.
Hægt er að sækja um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og gilda lögin afturvirkt frá 15. mars.
Lögin fela í sér allt að 75% hlutabætur: Atvinnuleysisbætur greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta enda hafi starfshlutfallið lækkað um 20% hið minnsta en þó ekki neðar en í 25%. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýja starfshlutfallið.
Allt að 90% heildarlauna: Greiðslur atvinnuleysisbóta skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns miðað við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta.
Þak á samanlagðar bætur og laun 700.000 krónur: Laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur geta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði.
Laun allt að 400.000 kr. að fullu tryggð: Einstaklingar með 400.000 kr. eða minna í laun á mánuði geta fengið greidd 100% af meðaltali launa.
Jafnframt er kveðið á um að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði enda hafi þeir tilkynnt skattayfirvöldum um verulegan samdrátt sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri.
Unnur segir að fyrir helgi hafði fjölgað töluvert í umsóknarbunkanum hjá Vinnumálastofnun en eins og áður sagði liggja ekki fyrir nákvæmar tölur. „Ég hef verið að vona að þegar þetta úrræði verður komið almennilega í loftið þá muni kannski einhverjar uppsagnir verða dregnar til baka. Því það er auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að ráðningarsamband haldi,“ segir Unnur.
Spurð út í samanburð við fjármálahrunið árið 2008 segir Unnur að ástandið nú sé allt öðruvísi en þá. Nú hafi ein stór atvinnugrein, ferðamannaiðnaðurinn, fallið. „Hún fellur eins og spilaborg á aðeins nokkrum vikum, eða jafnvel nokkrum dögum þegar flugleiðir lokast og umræðan verður meiri um veiruna. Fólk hættir að ferðast og þetta gerist gríðarlega hratt. Eitt var þegar WOW air féll að þá vorum við með eitt stórt félag sem varð gjaldþrota á einum degi,“ segir Unnur og bendir á að það hafi verið miklu auðveldara að halda utan um það en það sem er að gerast í dag.
„Nú er þetta svo gríðarlegur fjöldi sem er að horfa fram á atvinnuleysi eða miklar þrengingar í rekstri,“ segir Unnur.
Hún segir álagið hjá Vinnumálastofnun ofboðslega mikið líkt og hjá stjórnvöldum almennt. „Það verða allir að stökkva í bátana og hjálpast að. Þetta er ekkert öðruvísi,“ segir Unnur.
Hjá Vinnumálastofnun hefur verið gripið til þess ráðs að margir starfsmenn eru komnir í fjarvinnu. Við höfum unnið nótt sem nýtan dag undanfarnar tvær vikur við að koma fólki í fjarvinnu. Til að mynda fékk fæðingarorlofssjóður [skrifstofan er á Hvammstanga] þær fréttir á föstudagskvöldið að það væri komið útgöngubann en okkur tókst að koma upp fjarfundabúnaði heima hjá þeim sem þar starfa,“ segir Unnur.