Skikkaði manninn í sóttkví

Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Arizona, ásamt móður sinni, Halldóru …
Hulda Ásgerður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Arizona, ásamt móður sinni, Halldóru Magnúsdóttur, fyrrverandi skólastjóra í Vestmannaeyjum. Hulda segir ástandið orðið ískyggilegt í Bandaríkjunum. „Mike Pence varaforseti tilkynnti fyrir um það bil viku að veirustrok yrðu aðgengileg fyrir almenning á hverju götuhorni. Það hefur ekki orðið,“ sagði Hulda í samtali við mbl.is. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf haft þá reglu að koma hingað í janúar að heimsækja dóttur mína, en ég færði það yfir í mars núna reyndar.“ Þetta segir Halldóra Magnúsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Hamarsskóla í Vestmannaeyjum, sem síðustu vikur hefur notið eftirlaunaáranna í heimsókn hjá dóttur sinni, Huldu Ásgerði Guðmundsdóttur, hjúkrunarfræðingi í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum.

„Ég kom hérna 4. mars og hef verið hér síðan en við höfum auðvitað gætt þess að halda fjarlægðinni, það eru engar „mall“-ferðir núna,“ segir Halldóra og hlær þar sem þær mæðgurnar sitja úti í sólinni í Arizona en mbl.is ræddi við þær um helgina og Huldu svo á ný í kvöld.

Á tímabili leit út fyrir að flug Halldóru til Íslands væri í uppnámi en hún komst þó heilu og höldnu á fósturjörðina eftir millilendingu í Boston á austurströndinni og fór beint í sóttkví svo sem reglur gera ráð fyrir. „Það er náttúrulega svo mikið álag á flugfélögunum og maður verður bara að halda ró sinni,“ segir Halldóra, sem er rúmlega sjötug og nýtur eftirlaunaáranna að svo miklu leyti sem hægt er miðað við heimsmálin.

„Það sem mér finnst verst er að ég er búin að vera kvefuð núna lengi og verð ábyggilega litin hornauga ef ég byrja að hósta í fluginu,“ segir Halldóra og þær mæðgur geta ekki varist hlátri þrátt fyrir alvarlegt ástandið.

Sérnám í gjörgæsluhjúkrun

Hulda Ásgerður er tæplega fimmtug og hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í Phoenix í 13 ár og vinnur nú á svokallaðri dagskurðdeild á HonorHealth-sjúkrahúsinu þar í borg. Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1997 og hefur starfað við hjúkrun síðan þá, meðal annars í Noregi, Svíþjóð og Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Hulda hefur lokið sérnámi í gjörgæsluhjúkrun og sérhæfingu í hand- og lyflækningahjúkrun. „Ég sé um sjúklinga sem koma inn sama dag og eru eina nótt á sjúkrahúsinu eftir sína aðgerð,“ útskýrir hún, „þetta eru til dæmis konur sem hafa fengið brjóstakrabbamein og eru að fara í brjóstnám eða legnám og fólk sem er að fara í lýtaaðgerðir.“

Fjölskyldan í Phoenix, Johan Ivarsson verkfræðingur, Emilý Auður, Alexandra Hulda …
Fjölskyldan í Phoenix, Johan Ivarsson verkfræðingur, Emilý Auður, Alexandra Hulda og Hulda Ásgerður. Ljósmynd/Aðsend

Eiginmaður Huldu er sænski vélaverkfræðingurinn Johan Ivarsson og varð spennandi atvinnu- og rannsóknartækifæri hans, eftir að hann lauk doktorsnámi frá Chalmers Tekniska Högskolan í Gautaborg, kveikjan að vesturför þeirra hjóna. „Hann fór til Virginíu í post-doctoral-verkefni og í rauninni áttum við bara að vera í Bandaríkjunum í þrjú ár en svo bara gerðist lífið og það komu tvö börn og við sáum tiltölulega snemma að okkur langaði ekki að fara til baka svo við sóttum um græna kortið gegnum mig þar sem ég gat fengið grænt kort mun hraðar sem hjúkrunarfræðingur þótt hann væri í raun meira menntaður,“ segir Hulda.

Þau hafi því ákveðið að vera í Phoenix sem hefur verið dvalarstaður þeirra síðan 2007 og hafa Norðurlandabúarnir kunnað vel við sig undir sólinni í Arizona.

„Lífið er rosalega skrýtið“

En hvernig er að starfa sem hjúkrunarfræðingur í Bandaríkjunum árið 2020 þegar framandi veira herðir tök sín á heimsbyggðinni? „Lífið er rosalega skrýtið. Það er ekki hægt að fá neinn klósettpappír í búðunum, það er ekki til neitt brauð og engin egg, fólk er að fara milli búða til að fá nauðsynjavörur. Við vorum reyndar tiltölulega heppin, vorum nýbúin að kaupa allt inn áður en fólk fór að læsa sig inni. Við höfum bara reynt að halda okkar striki, halda okkur frá fólki og fylgja reglunum,“ segir Hulda.

Dætur þeirra hjóna, þær Emilý Auður, 16 ára, og Alexandra Hulda, 14 ára, eru í vorfríi frá skóla og Hulda þess vegna í fríi frá sjúkrahúsinu til að njóta frísins með stúlkunum og taka á móti móður sinni í heimsókn.

Mæðgurnar Halldóra og Hulda Ásgerður. Hulda mætir á næturvakt í …
Mæðgurnar Halldóra og Hulda Ásgerður. Hulda mætir á næturvakt í kvöld á annarri deild en venjulega á sjúkrahúsinu í Phoenix. „Ég er að fara að vinna á fyrirburagjörgæslu, eða NICU, í kvöld, þar er skortur á hjúkrunarfræðingum. Hefði ég ekki samþykkt það hefði ég ekki fengið nein laun,“ segir hún mbl.is frá. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er ekki að vinna á gjörgæsludeild sjálf en hef þekkingu á því sviði og ég veit í raun ekkert hvað mun gerast næstu daga. Nú er búið að fresta öllum skurðaðgerðum sem eru ekki lífsnauðsynlegar og vel má vera að starfsfólk innan sjúkrahússins verði skikkað til að starfa við hluti sem það er ekki vant að starfa við, ég veit ekkert hvernig þetta verður, þetta breytist dag frá degi,“ segir Hulda.

Hún hafi fengið tölvupóst frá yfirmanni sínum fyrir helgi þar sem tilkynnt var að líkamshiti allra sem mæta til starfa yrði mældur og engum hleypt inn nema ástæða væri til að ætla að hver og einn væri heilbrigður. Íbúar Phoenix eru rúmlega fjórar milljónir, í Arizona-ríki hafa 234 greinst með veiruna og tveir látist af völdum hennar.

Blakmóti dótturinnar frestað

Nú, þegar viðtalið er skrifað, er það komið í ljós að veruleiki Huldu í vinnunni verður ekki alveg sá sem áður var talið. „Ég var að fá skilaboð frá yfirmanninum um að deildin mín verði líklega ekki opnuð að minnsta kosti þessa viku,“ segir hjúkrunarfræðingurinn, „ég er að fara að vinna á fyrirburagjörgæslu, eða NICU, í kvöld, þar er skortur á hjúkrunarfræðingum. Hefði ég ekki samþykkt það hefði ég ekki fengið nein laun,“ bætir hún við.

Eins og á Íslandi og um alla Evrópu eru Bandaríkin að lokast hröðum skrefum. „Dæturnar áttu að fara aftur í skólann í dag eftir vorfrí en það er búið að loka skólanum og öllum íþróttum. Blakmóti, sem Emilý mín átti að taka þátt í í Las Vegas um helgina með liðum alls staðar að hér af vesturströnd Bandaríkjanna, hefur verið frestað. Hótelin í Las Vegas eru að loka ef þau eru það ekki nú þegar,“ segir Hulda.

Hún segir ástandið í Bandaríkjunum verða ískyggilegra dag frá degi. „það er skortur á veirustroki og rakningu á smiti. Mjög fáir eru prófaðir, þó svo þeir séu með grunsamleg einkenni, vegna skorts á "testing kits", þannig að við höfum í raun ekki rétta mynd af ástandinu. Mike Pence varaforseti tilkynnti fyrir um það bil viku að veirustrok yrðu aðgengileg fyrir almenning á hverju götuhorni. Það hefur ekki orðið,“ segir Hulda.

Hulda Ásgerður ásamt dætrum sínum, Alexöndru Huldu og Emilý Auði. …
Hulda Ásgerður ásamt dætrum sínum, Alexöndru Huldu og Emilý Auði. Hulda segist hafa skikkað eiginmann sinn, sænska verkfræðinginn Johan Ivarsson, í sóttkví við komu hans frá Gautaborg en bætir því svo við glettnislega að auðvitað hefði hann sjálfur ætlað sér í kvína. Ljósmynd/Aðsend

Ivarsson, maður Huldu, kom heim fyrir viku úr ferðalagi til Gautaborgar, viku fyrr en áætlað var vegna landamæralokana. „Hann var mældur, svaraði nokkrum spurningum og svo var bara sagt við hann "You‘re good to go". Ég skikkaði hann hins vegar í sóttkví til að vernda okkur og almenning gegn því sem hann hugsanlega komst í snertingu við á tveimur risastórum flugvöllum, Heathrow og LAX í Los Angeles, á leið sinni hingað heim til USA, en auðvitað vildi hann sjálfur fara í sóttkví,“ segir Hulda glettin, á leið að leggja sig aðeins fyrir næturvakt á vinnustað sínum í Phoenix í Arizona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert