Búist er við því að fyrir lok apríl 2020 hafi líklega um 2.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð tæplega 6.000 manns samkvæmt svartsýnustu spá. Þetta kemur fram í uppfærðri spá yfirvalda.
Spáin hefur breyst verulega frá því 19. mars þar sem faraldurinn er í veldisvexti og frá þeim tíma hefur fjöldi tilfella allt að því tvöfaldast.
Helstu niðurstöður spálíkansins með gögnum til og með 22. mars eru eftirfarandi:
Búist er við því að fyrir lok apríl 2020 hafi líklega um 2.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð tæplega 6.000 manns skv. svartsýnustu spá.
Búist er við að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki á fyrstu vikum apríl, og verði sennilega nær 2.000 manns, en gæti náð tæplega 4.500 manns skv. svartsýnustu spá.
Búist er við að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni um 170 manns þarfnast aðhlynningar í innlögn á sjúkrahúsi, en gæti náð um 400 manns skv. svartsýnustu spá.
Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður um miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að um 90 einstaklingar geti verið inniliggjandi, en svartsýnasta spá er 200 einstaklingar.
Búist er við því að um 20 einstaklingar veikist alvarlega, þ.e. þarfnist gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er á bilinu 45 - 50 einstaklingar.
Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti verið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 7 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 18 manns.