Æskilegt hefði verið að í upphafi hafi legið fyrir að Íslensk erfðagreining ætlaði að gera vísindarannsókn á heilbrigðissviði í tengslum við kórónuveiruna.
Þetta kemur fram í afstöðu Persónuverndar vegna vísindarannsóknar á COVID-19. Málið snýst um erindi ÍE til Persónuverndar um nýtingu á niðurstöðum sýnatöku fyrirtækisins til vísindarannsóknar en leyfið var veitt í gær. Þar með getur ÍE birt niðurstöður skimana sinna fyrir kórónuveirunni í ritrýndu vísindatímariti.
Vísað er til samskipta Persónuverndar, Vísindasiðanefndar og ÍE laugardaginn 7. mars og sagt að daginn áður hafði ÍE kynnt Persónuvernd og Vísindasiðanefnd þá fyrirætlun sína að skima fyrir COVID-19-veirunni. Fallist hafi verið á þetta mat ÍE í sameiginlegri yfirlýsingu Vísindasiðanefndar og Persónuverndar 8. mars.
„Kom fram af hálfu Vísindasiðanefndar, eftir samskipti við Persónuvernd, að hluti verkefnisins virtist fela í sér vísindarannsókn á heilbrigðissviði. Lýsti ÍE því þá yfir að ekki ræddi um slíka rannsókn heldur klíníska vinnu,“ segir í afstöðu Persónuverndar.
Þar segir einnig að nú hafi komið í ljós að auk klínískrar vinnu sé fyrirhuguð vísindarannsókn. „Æskilegt hefði verið að þetta hefði legið fyrir strax í upphafi, en í því sambandi má nefna að laugardaginn 7. mars 2020 lofuðu Persónuvernd og Vísindasiðanefnd ÍE flýtimeðferð þannig að málinu yrði lokið eigi síðar en þriðjudaginn 10. s.m.“ segir Persónuvernd.