Opnað fyrir umsóknir um hlutabætur á morgun

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í vikunni.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í vikunni. Ljósmynd/Lögreglan

Hægt verður að sækja um greiðslu bóta vegna skerts starfshlutfalls fyrir hádegi á morgun. Umsóknirnar fara fram rafrænt á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á von á að fjöldi umsókna muni skipta þúsundum. 

Líkt og greint var frá í síðustu viku hafa verið sett lög um at­vinnu­leys­is­trygg­ing­ar á minnkuðu starfs­hlut­falli og gilda lögin afturvirkt frá 15. mars. 

„Við búumst við mjög miklum fjölda en hversu miklum þori ég alls ekki að spá um,“ segir Unnur í samtali við mbl.is, en skýtur á milli tíu og tuttugu þúsund. 

Síminn hefur ekki stoppað hjá Vinnumálastofn­un síðustu daga þar sem fjöl­mörg fyr­ir­tæki eru að hafa sam­band vegna upp­sagna og annarra úrræða tengd­um kór­ónu­veirufar­aldr­in­um. „Það er rosalega mikið að gera. Allir sem vettlingi geta valdið eru í þessu verkefni,“ segir Unnur en flestar erindi sem berast eru óskir eftir leiðbein­ing­um varðandi upp­sagn­ir og eins at­vinnu­leys­is­bæt­ur vegna minnkaðs starfs­hlut­falls. Stofnunin er að meta hvort og þá hversu mörgum starfsmönnum þarf að bæta við. 

Atvinnurekendur þurfa að staðfesta skert starfshlutfall

Unnur segir að í fyrstu hafi hún búist við að skert starfshlufall umsækjenda yrði margs konar en nú er útlit fyrir að flestir séu að fara niður í 25% starf. „Það er mikið spurt um 25 prósentin en ég er að vona að einhverjir sjái fram á einhverja glætu.“ 

Stofnunin er vel undirbúin fyrir morgundaginn en Unnur leggur áherslu á að svo að umsóknir fari í gegn þurfa atvinnurekendur að staðfesta minnkað starfshlutfall starfsfólks. „Ég tek það fram að atvinnurekendur þurfa líka að fara inn á Mínar síður og staðfesta minnkað starfshlutfall svo umsóknin fari áfram.“

Tilkynning verður send út í fyrramálið þegar umsóknargrunnurinn er tilbúinn og einstaklingar sem fara í minnkað starfshlutfall geta sótt um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert