Óvíst er hvort pinnar sem fyrirtækið Össur á til á lager henti til sýnatöku fyrir kórónuveiruna. DeCode er að kanna virkni þeirra og svars er að vænta á næstunni.
Þetta kemur fram í svari Eddu Heiðrúnar Geirsdóttur, forstöðumanns samskiptasviðs Össurar.
Fjallað var um sýnatökupinna, og skort á þeim, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði unnið að gæðaúttekt á 20 þúsund pinnum frá Össuri en skortur er á sýnatökupinnum á landinu.
Edda segir alls óvíst hvort pinnarnir uppfylli kröfur sóttvarnalæknis en niðurstaða þess efnis liggur fyrir fljótlega.
„Á meðan stillum við væntingum í hóf en það yrði að sjálfsögðu mikið ánægjuefni ef við gætum aðstoðað,“ segir í svari Eddu.