„Pinnavandamálið“ úr sögunni í kvöld?

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við komum til með að vita seinna í kvöld hvort þeir virka,“ segir Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ingar. Starfsmenn fyrirtækisins skoða nú hvort 20 þúsund pinnar frá Össuri henti til sýna­töku fyr­ir kór­ónu­veiruna.

Íslensk erfðagreining hafði samband við Össur til að athuga hvort fyrirtækið gæti búið til sýnatökupinna en skortur er á slíkum pinnum vegna kórónuveirufaraldursins.

„Ef þeir virka þá eru til 20 þúsund pinnar á Íslandi. Það sem meira er, þá verður til sá möguleiki að panta fleiri pinna af þessari gerð. Enginn hefur verið að eltast við þessa pinna sem hafa verið búnir til í allt öðrum tilgangi,“ segir Kári.

Ef umræddir pinnar virka þá yrði „pinnavandamálið hið mikla“ úr sögunni, eins og Kári orðar það sjálfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert