Smáforrit sem auðveldar smitrakningu

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra stefnir á að koma smáforriti í loftið eftir helgi sem auðvelda á vinnu við smitrakningu. Forritið verður sent í farsíma landsmanna og allir beðnir um að sækja það en að minnsta kosti 60% farsíma á landinu þurfa að nota forritið svo það virki.

Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 en Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að með þessu verði hægt að ná fyrr til þeirra sem hugsanlega gætu smitast.

Víðir segir að þetta myndi einfalda vinnu smitrakningateymisins til mikilla muna. Nú þurfi að ræða við smitaða og þeir beðnir um að rifja upp ferðir sínar og samskipti á mögulegum smittíma.

Forritið nemur þá síma sem eru nálægt því og þar með er hægt að sjá hverjir eru mögulega útsettir fyrir smiti.

Ef þú ert smitaður þá eru upplýsingar úr þínum síma í gagnagrunni og þá sést hverjir eru í nánd við símann þinn,“ segir Víðir og heldur áfram:

Allir sem eru hugsanlega útsettir fá upplýsingar fyrr.

Á morgun mun nákvæm kerfislýsing forritsins liggja fyrir og þá kemur í ljós hvort sækja þarf um leyfi fyrir forritinu til Persónuverndar eða hvort forritið sé eingöngu tilkynningaskylt.

Smáforrit svipað því sem á að nota hér hafa verið notuð í Suður-Kóreu og Singapúr við smitrakningu.

Víðir segir að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að aðrir geti séð gögnin eða að þau verði notuð síðar. „Smitrakningateymið mun eingöngu sjá gögnin og þeim verður síðan eytt þegar þessu verkefni er lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert