Veirusmit eða eitrun felldi kanínurnar

Kanínur í Elliðaárdalnum.
Kanínur í Elliðaárdalnum. Ljósmynd Margrét Sif Sigurðardóttir

Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum vinna að því að finna ástæður þess að fjöldi kanína hefur veikst og drepist í Elliðaárdal. Helstu möguleikar til skoðunar eru brátt veirusmit eða eitrun af einhverju tagi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Fólki er ráðlagt að taka ekki með sér kanínur heim til að forðast útbreiðslu smits ef um slíkt er að ræða. 

Ekkert bendir til eitrunar af völdum músa- eða rottueiturs, frostlagar eða salta vegna hálkuvarna.

„Þeir veirusjúkdómar sem helst geta leitt kanínur hratt til dauða eru annars vegar smitandi lifrardrep og hins vegar myxomaveirusýking,“ segir í tilkynningunni og málið er útskýrt nánar:

„Orsök smitandi lifrardreps er harðgerð veira af calici-tegund (e. Rabbit Haemorrhagic Disease Virus). Smitaðar kanínur drepast oftast á innan við einum sólarhring og oft sjást engin sérstök sjúkdómseinkenni áður en þær drepast snögglega. Veiran hefur aðeins einu sinni komið upp hér á landi árið 2002 á Suður- og Suðvesturlandi. Sjúkdómurinn dró mikinn fjölda af kanínum til dauða á kanínubúum og í heimahúsum áður en náðist að ráða niðurlögum hans. Það er í fyrsta og eina skipti sem sjúkdómurinn hefur greinst hér á landi. Hinn veirusjúkdómurinn er vegna myxoma veiru sem tilheyrir svokölluðum pox veirum. Dýrin drepast oft á innan við tveimur sólarhringum og þá helst með einkenni frá öndunarfærum og bólgum á höfði.“

Báðir þessir veirusjúkdómar sýkja eingöngu kanínur. Öðrum dýrum eða fólki stafar ekki hætta af smiti.

Fólk með kanínur heima fyrir ætti að forðast að fara í Elliðaárdalinn á meðan óvíst er hvort um annan hvorn þessara sjúkdóma er að ræða. Veiran getur lifað lengi í umhverfi smitaðra kanína og mjög hætt við að fólk beri veiruna með sér heim á skóm og fatnaði. Ef kanínueigendur hafa gengið um svæðið er þeim ráðlagt að þvo fatnað í að minnsta kosti 50 gráðu hita og setja skóbotna í klórblöndu 1:10. Ólíklegt er að sótthreinsispritt og sápa dugi til að drepa veiruna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert