Neytendastofa hefur gefið út leiðbeiningar um inneignarnótur og breytingar pakkaferða vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Ákveðið hefur verið að einnig sé hægt að veita kaupendum inneignarnótu vegna COVID sem gildir í 4 ár. Tekið er fram að lög gilda um pakkaferðir og samkvæmt þeim skal ferðaskipuleggjandi endurgreiða hana ef henni er aflýst eða afpöntuð vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Endurgreiða á hana innan 14 daga.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið beinir því til ferðamanna að huga vel að því hvort þeir geti tekið við inneignarnótu í stað endurgreiðslu. Brýnt er fyrir ferðaskipuleggjendum/ferðaskrifstofum að viðhafa góða viðskiptahætti.
Á inneignarnótunni ætti að koma skýrt fram að hún sé vegna útbreiðslu COVID. „Á hana ætti meðal annars að koma fram gildistími hennar. Eðlilegt er að miða við fjögur ár sem er fyrningarfrestur almennra krafna. Stuttur gildistími getur falið í sér ósanngjarna samningsskilmála. [...] Á inneignarnótu ætti einnig að koma fram að ferðamanni sé innan gildistíma ávallt heimilt að krefjast endurgreiðslu ef hann hættir við að nota COVID inneignarnótuna.“ Þetta segir meðal annars á vef Neytendastofu.