Við viðgerð á stofnæð hitaveitu við Valsheimilið í Reykjavík fór lögnin í sundur með þeim afleiðingum að vesturhluti borgarinnar er nú heitavatnslaus. Unnið er að því að setja vatn aftur á eftir öðrum leiðum. Talið er að um þrjár klukkustundir taki að ná upp fullum þrýstingi í kerfinu.
Bilunin nú tengist stórum leka er varð á svipuðum stað í desember síðastliðnum. Þá var gert við staðbundna skemmd á lögninni en nú er ljóst að sá leki hefur valdið skemmdum á lögninni víðar. Hún verður nú tekin úr rekstri svo ekki verði aftur heitavatnslaust af hennar völdum.
Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatn kemur á að nýju. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.
Gert er ráð fyrir að heitt vatn verði komið aftur á upp úr miðnætti.