Embætti landlæknis hefur gefið út góð ráð vegna COVID-19 til þeirra sem eiga langveik börn og ungmenni með það að leiðarljósi að vernda viðkvæma hópa og einstaklinga.
Í ráðleggingum landlæknis segir að veiran leggist þyngst á þá sem eru aldraðir og veikir en að hún geti valdið alvarlegum sjúkdómi hjá fólki á öllum aldri og jafnvel hjá hraustum einstaklingum.
„Þó að þú tilheyrir ekki áhættuhópi ættirþú að leggja þitt af mörkum til að vernda börn með langvinna sjúkdóma gegn smiti, með því að verja þig. Samfélagslegt verkefni okkar allra er að vernda þá sem eru viðkvæmari og veikari.“
Mögulegt sé að sum börn og ungmenni þoli COVID-19 sýkingu verr en önnur og er þess vegna leitast við að skilgreina betur hvaða sjúkdómar auka hættuna á alvarlegum einkennum, en þó er sérstaklega tekið fram að á þessari stundu sé ekkert sem bendi tl þess að börn með langvinna sjúkdóma veikist alvarlegar en aðrir.