Ekki er útlit fyrir að skortur verði á sýnatökupinnum næstu daga eftir að sending með 2.750 pinnum barst til landsins síðdegis. Um 1.200 pinnar voru til í morgun og eru þeir í heildina þá tæplega 4.000 þessa stundina.
Þetta staðfestir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Sendingin kom frá umboðsaðila á Íslandi og ætti að nýtast næstu daga, en ekki mikið lengur, að sögn Karls. Á morgun skýrist svo hvort um 20 þúsund sýnatökupinnar sem Össur útvegaði reynist nothæfir.
Íslensk erfðagreining sagði þá ónothæfa en prófanir voru gerða á tveimur heilsugæslustöðvum í dag. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag telur Karl að fullyrðing ÍE um að pinnarnir virkuðu ekki hafi líklega verið byggð á misskilningi. Ákveðið var að prófa pinnana aftur í dag og taka þá tvö sýni úr sömu sjúklingum með pinnunum sem hafa verið í notkun og pinnunum sem Össur útvegaði.
Niðurstöður úr samprófun liggja fyrir en það mun ekki skýrast fyrr en á morgun hvort pinnarnir eru nothæfir. „Við erum að fara yfir niðurstöðurnar og ætlum að gefa okkur smá tíma í það áður en við ákveðum hvort við notum þetta eða ekki,“ segir Karl.