Fundu óvæntan lager með sex þúsund pinnum

Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir á sýkla- …
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. mbl.is/Golli

Um sex þúsund sýnatökupinnar fundust óvænt á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í morgun. „Þetta er mjög mikill léttir, skiljanlega, og kemur okkur ansi langt,“ segir Karl G. Krist­ins­son, yf­ir­lækn­ir á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans, í samtali við mbl.is. 

Alls eru því um níu þúsund nothæfir sýnatökupinnar til hér á landi. Karl vissi ekki nákvæmlega hvernig fundinn bar að nema að pinnarnir leyndust í geymslu í birgðastöð deildarinnar. Hann segir aðalatriðið að þarna hafi fundist nothæfir pinnar. Um er að ræða gamlar birgðir sem renna út í næsta mánuði en Karl segir ekkert því til fyrirstöðu að nota þá nú. 

„Þetta er eins gott því það er orðið ansi erfitt að fá þessi hefðbundnu sýnatökusett,“ segir Karl og nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. „Við áttum von á tíu þúsund pinnum frá Bandaríkjunum en það var hæstbjóðandi sem fékk þá og borgaði í reiðufé.“

Þeir níu þúsund pinnar sem eru til á sýkla- og veirufræðideild spítalans þessa stundina verða allir notaðir til sýnatöku þar en Karl vonast til að pinnarnir frá Össuri, sem eru um 20 þúsund talsins, geti nýst til skimunar hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hvort þeir verði nothæfir ætti að skýrast síðar í dag. 

„Við höldum þeim fyrir okkur en við vonum að prófanir á pinnunum frá Össuri haldi áfram að ganga vel og við getum staðfest að Íslensk erfðagreining geti notað þá og skimunin haldið áfram.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka