Veitingamenn hafa sent frá sér áskorun þar sem þess er krafist að frumvarp dómsmálaráðherra sem heimlar netverslun með áfengi fái flýtimeðferð á Alþingi og verði samþykkt með tilliti til þeirra aðstæðna sem ríki í samfélaginu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. „Sala léttvíns og bjórs samhliða veitingasölu á netinu gæti reynst sem lítill plástur á svöðusár veitingastaða um þessar mundir,“ segja þeir.
Áskoruninni er beint til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra.
Þetta kemur fram í færslu sem Jakob E. Jakbosson, veitingamaður á Jómfrúnni sem situr janframt í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar, birti á Facebook. En alls skrifa hátt í 20 veitingamenn undir áskorunina.
„Við, undirritaðir veitingamenn stöndum eins og aðrir landsmenn frammi fyrir áður óþekktu ástandi. Líklegt má telja að margir innan okkar raða munu tapa sínum fyrirtækjum ef fer sem horfir. Flestir reyna þó að aðlaga sig breyttum aðstæðum, bjóða upp á heimsendingaþjónustu sem og heimtöku (take away) auk snertilausra viðskipta og svo mætti áfram telja. Framlegðin er ekki mikil en við viljum þjónusta okkar viðskiptavini hér eftir sem hingað til og freista þess að koma fyrirtækjum okkar í var sem og störfum þeim tengdum, meðan stormurinn gengur yfir.
Í dómsmálaráðuneytinu er tilbúið frumvarp um netverslun með áfengi sem enn hefur ekki verið leitt í lög. Við krefjumst þess af stjórnvöldum að frumvarpið verði sett í flýtimeðferð og það samþykkt með tilliti til þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu. Sala léttvíns og bjórs samhliða veitingasölu á netinu gæti reynst sem lítill plástur á svöðusár veitingastaða um þessar mundir. Þótt aðgerðin sé minniháttar (og löngu timabær) gæti innleiðing laga um að heimila netverslun með áfengi skilið milli feigs og ófeigs hjá fjölda veitingamanna. Þar að auki myndi innleiðingin styrkja innlenda framleiðslu sem mun þá loks sitja við sama borð og erlendir keppinautar,“ segja veitingamennirnir
Þeir taka ennfremur fram að einokun ríkisins í þessum málaflokki gangi að þeirra mati gegn þeirri samfélagslegu ábyrgð sem yfirvöldum beri að sýna við núverandi aðstæður.
„Því er þess einnig óskað, til þrautavara, nái frumvarpið ekki fram að ganga, að sett verði bráðabirgðaákvæði líkt og nágrannalönd okkar og aðrir hafa þegar gert. Slíkt ákvæði myndi heimila vínveitingaleyfishöfum heimsendingu á áfengi með mat á meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir.“
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.