Gögnin sýna heftan vöxt á Íslandi

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ og Þórólfur Guðnason …
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á blaðamannafundinum. Ljósmynd/Lögreglan

Meðalaukning smita á Íslandi er með því lægsta sem gerist í Evrópu og eru Íslendingar að standa sig mjög vel í baráttunni gegn kórónuveirunni. Aðgerðirnar sem hefur verið gripið til eru að skila árangri. Þær sýna heftan vöxt, ekki veldisvöxt. Þetta sagði Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, er hann kynnti nýtt reiknilíkan vegna veirunnar á blaðamannafundi.  

Ísland og Færeyjar standa sig best

Íslendingar og Færeyingar eru að standa sig best allra í að mæla kórónuveiruna hjá fólki. „Það er algjör gæfa að þessi stefna hafi verið tekin hérna,“ sagði hann og nefndi mikilvægi samstarfsins við Íslenska erfðagreiningu varðandi skimanir.

Hann sagði mikinn áhuga á reiknilíkönum Háskóla Íslands á meðal stærðfræðinga og að margir rýni í þau. Vitnaði hann í grein frá Pawel Bartoszek borgarfulltrúa um að ekkert Evrópuland hafi tafið faraldurinn betur en Ísland.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Reiknilíkanið nauðsynleg aðferð 

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði heilbrigðisyfirvöld hafa allar forsendur til að halda sig við sömu áherslur og sömu aðgerðir og hefur verið beitt hingað til. „Ég vil hvetja alla til að halda áfram þessu góða starfi úti í samfélaginu,“ sagði hann og hvatti fólk til að gæta vel að hreinlæti, fjarlægðarmörkum og samgöngutakmörkunum.

Þórólfur sagði reiknilíkanið nauðsynlegt og í raun og veru viðurkennda aðferð í smitsjúkdómafræðum til að meta faraldra. „Það er mjög mikilvægt fyrir heilbrigðisyfirvöld að styðjast við slíkt líkan. Það er í raun eina raunverulega tækið sem við höfum til að meta þróunina á vísindalegan hátt og losna við huglægt og tilfinningalegt mat á því sem er að gerast.“

Hann tók fram að þetta væri stærðfræðilíkan en ekki raunveruleikann og best sé að skoða niðurstöður þess með gagnrýnum huga. Hann þakkaði einnig Thor og félögum hans fyrir reiknilíkanið og bætti við: „Þetta mun taka sinn tíma, þetta mun vera ákveðið álag,“ sagði hann um baráttuna við útbreiðslu kórónuveirunnar en ítrekaði að við munum komast í gegnum vandann.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ.
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við HÍ. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka