„Við erum komin með hluta af niðurstöðunum, ekki allar sem við þurfum, en þær sem eru komnar eru jákvæðar þannig að vonir standa til að það verði mögulegt að nota pinnana,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, í samtali við mbl.is.
Pinnarnir sem um ræðir eru 20 þúsund sýnatökupinnar vegna kórónuveirunnar sem Össur hefur útvegað. Íslensk erfðagreining sagði þá ónothæfa í gær en prófanir voru gerðar á tveimur heilsugæslustöðvum seinni partinn í gær og segir Karl niðurstöðurnar lofa góðu.
Tekin voru tvö sýni úr sömu sjúklingum með pinnunum sem hafa verið í notkun og pinnunum sem Össur útvegaði. „Það er samsvörun á milli greininga með báðum tegundum af pinnum,“ segir Karl.
Til stendur að taka fleiri próf í dag og þegar niðurstöður úr þeim liggja fyrir og búið verður að rýna frekar í þær niðurstöður sem komnar eru býst Karl við að hægt verði að skera úr um hvort pinnarnir 20 þúsund frá Össuri séu nothæfir til sýnatöku.
„Þetta lítur betur út núna en það gerði í gær,“ bætir hann við.
Yfirvofandi skortu á sýnatökupinnum var bjargað fyrir horn í gær þegar sending með um 2.750 pinnum barst til landsins.