Kristján H. Johannessen
Gríðarlegt magn af blautklútum í fráveitukerfi gerði hreinsistöð við Klettagarða í Reykjavík óstarfhæfa, en ruslið barst þangað eftir að hafa verið hent í salerni.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir Ísland ekki vera eina landið sem glímir við þennan vanda. Víða um heim eru hreinsistöðvar að fyllast af sótthreinsiklútum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
„Fólk virðist mjög mikið vera að nota sótthreinsiklúta, enda hefur fólki í sóttkví verið bent á að sótthreinsa til að mynda baðherbergi ef það er veikt eða deilir heimili með einhverjum sem er veikur. Margir virðast svo henda þessum klútum beint í klósettið,“ segir hún í Morgunblaðinu í dag og bætir við að fólk verði þegar í stað að láta af þessari hegðun sinni. Gerist það ekki muni hreinsistöðvar stíflast á nýjan leik með þeim afleiðingum að óhreinsað skólp flæði í sjóinn.