Gera ráð fyrir 20-30 þúsund umsóknum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að mikil þörf kunni að vera á því að framlengja úrræði um hlutabætur, þ.e. atvinnuleysisbætur að hluta vegna skerts starfshlutfalls.

Lög um hlutabætur voru samþykkt síðasta föstudag og gilda út maí. Opnað var fyrir umsóknir á miðvikudag, en síðan þá hafa tæplega 16.000 umsóknir borist. Aðspurð segir Katrín að fjöldi umsókna komi ekki á óvart. 

„Við áttum von á því að þetta yrði stóra leiðin til að verja afkomu fólks, og já, við áttum von á að hún yrði mikið nýtt.“ Áætlanir ráðuneytisins gera ráð fyrir kostnaði upp á 22 milljarða króna, og að fjöldi bótaþega verði á bilinu 20-30 þúsund manns.

Fjölmörg fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið og lækkað starfshlutfall þorra starfsmanna sinna. Þeirra á meðal eru fyrirtæki sem síðustu ár hafa malað gull. Má þar nefna Bláa lónið, sem í fyrrasumar greiddi fjóra milljarða í arð. Fyrirtækið sagði í gær 164 starfsmönnum upp og bauð 400 til viðbótar upp á skert starfshlutfall.

Spurð hvort hún telji óeðlilegt að stöndug fyrirtæki nýti sér þessa leið, segist Katrín ekki vilja dæma einstök fyrirtæki. „Auðvitað er það svo að við reiðum okkur á að atvinnulífið sýni ábyrgð. En meginmarkmiðið er að verja afkomu fólks.“

Katrín segir að alltaf hafi legið fyrir að reynslan af úrræðinu yrði metin áður en tekin væri ákvörðun um framlengingu í maí. Hún útilokar ekki að breytingar verði gerðar á skilyrðum bóta. „En við höfum sagt að við ætlum frekar að gera meira en minna. Tekjufall margra fyrirtækja er gríðarlegt og nauðsynlegt að koma til móts við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert